Til að bregðast við brýnni þörf á húsnæði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, á meðan umsóknir þeirra eru í vinnslu, vill innviðaráðherra veita undanþágur frá viðmiðum sem annars gilda um „brunavarnir, öryggi og hollustuhætti húsnæðis.“ Ráðherrann segir eftir sem áður að „enginn afsláttur“ verði gefinn af brunavörnum og öryggi. Hann tók undir með Loga Einarssyni um að fara þyrfti varlega og nefndi að „einhver okkar muna alla vega eftir bröggum sem entust býsna lengi og var þörf á sem búsetuúrræði.“ Eins og margt í máli ráðherrans var heldur tvírætt hvort hann vísaði heldur til bragganna sem fyrirmyndar eða víti til að varast.
Undanþágan sem þannig skal gerð án þess að veita afslátt er hugsuð til að bregðast við því sem ráðherrann segir brýna þörf: Vinnumálastofnun hýsi nú 2.100 umsækjendur um alþjóðlega vernd en segist þurfa að hafa yfir húsnæði að ráða fyrir alls um 4.500 fyrir árslok.
Bætist sífellt við húsnæðisþörfina
Það var á mánudag sem Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, mælti á Alþingi fyrir frumvarpi að breytingu á lögum til að hýsa megi umsækjendur um alþjóðlega vernd í áður óleyfilegu húsnæði, með undanþágum frá þeim viðmiðum sem annars gilda um brunavarnir, öryggi og hollustuhætti húsnæðis.
Í greinargerð fyrir frumvarpinu segir að markmið þess sé að bregðast við bráðavanda í húsnæðismálum umsækjenda um alþjóðlega vernd en félags- og vinnumarkaðsráðuneytið sjái fram á að næstu vikur og mánuði muni „ekki takast að tryggja nægilega mikið af hentugu íbúðarhúsnæði á leigumarkaði til búsetu fyrir umræddan hóp.“ Þannig sé ætlunin að greiða fyrir því að fyrir hönd Vinnumálastofnunar, sem nú annast málaflokkinn, megi taka á leigu húsnæði „sem er þegar fyrir hendi á húsnæðismarkaði en sem ekki hefur verið ætlað til búsetu.“ Þá er gert ráð fyrir „að um tímabundin búsetuúrræði verði að ræða þar sem umsækjendur um alþjóðlega vernd dvelji þar til niðurstaða umsóknar liggur fyrir eða flutt er í annað húsnæði á vegum Vinnumálastofnunar á meðan þeirrar niðurstöðu er beðið.“
Sigurður Ingi sagði að um mitt ár í fyrra hafi um 700 umsækjendur um vernd dvalið í búsetuúrræðum á vegum Vinnumálastofnunar, á meðan þeir biðu eftir niðurstöðu umsóknar, en nú séu það um 2.100 manns. Fjöldinn hafi þannig þrefaldast á einu ári. Upplýsingar Vinnumálastofnunar gefi til kynna að um 100 nýir umsækjendur muni þurfa dvalarstað í hverri viku, og fyrir lok árs þurfi að afla húsnæðis fyrir 1.500 umsækjendur. „Skýrist það af því að fjöldi þeirra sem þurfa á húsnæði að halda á hverjum tíma er mun meiri en fjöldi þeirra sem fara úr húsnæðisúrræðum stofnunarinnar á hverjum tíma. Bætist því sífellt við húsnæðisþörfina.“
Þann 1. janúar geri spár Vinnumálastofnunar þannig ráð fyrir að stofnunin þurfi húsnæði fyrir um 4.500 umsækjendur. Það sé fyrirséð að ekki takist að tryggja nægilega mikið af „hentugu íbúðarhúsnæði“ á leigu fyrir þann hóp. Því sé nauðsynlegt að stjórnvöldum verði fært að nýta annað húsnæði „svo sem skrifstofuhúsnæði í eigu ríkisins“ sem tímabundin búsetuúrræði. Sigurður Ingi nefndi til dæmis húsnæði gamla fæðingarheimilisins við Eiríksgötu.
Hættan á að gera „undirmálsíbúðir“ hluta af okkar veruleika
Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingar, sagði í andsvari sínu að hann áttaði sig á tilgangi frumvarpsins og ætlaði sér ekki að bregða fæti fyrir það. „En það eru samt alveg varnaðarorð sem við þurfum að ræða,“ sagði hann. „Við erum á tímum þar sem er fordæmalítill skortur á húsnæði og við þurfum að byggja mjög mikið og hraði felur alltaf í sér hættur. Það er sérstaklega flókið að taka húsnæði sem er hannað frá grunni til annarra nota og breyta í íbúðarhúsnæði og í ljósi þess að það er allt of lítið fjallað um gæði, óefnisleg gæði híbýla í byggingarreglugerð, þá hef ég áhyggjur af því að það sem er hugsað sem tímabundin úrræði muni á endanum að einhverju leyti varða veginn og gera undirmálsíbúðir hreinlega hluta af okkar veruleika.“
Logi spurði ráðherrann hvort rætt hefði verið, við gerð frumvarpsins, að skrifa þar meira um „gæði og hvað þessar íbúðir þurfi að innibera.“ „Við getum ekki gleymt því,“ sagði hann, „að þarna er um að ræða fólk og fjölskyldur sem um tímabundið skeið, að minnsta kosti, er að fara að búa sér heimili á þessum stöðum.“ Logi sagði að sér þætti „ótækt að þær uppfylli ekki bara þær almennu gæðakröfur sem við gerum til húsnæðis.“
„Svo ég tali nú ekki um hvað getur gerst,“ bætti hann við „af því að það er auðvitað alveg ýjað að því að það sé hægt að framlengja þetta og það kæmi mér mjög á óvart ef eitthvað af þessum eignum yrði ekki varanlegar íbúðir til allrar framtíðar. Dæmin segja okkur sögu um slíkt þegar eignarrétturinn er ræddur.“
Ráðherra brást við með því kunnuglega framsóknarfasi að segja hvorki já né nei – „ég er alveg sammála háttvirtum þingmanni,“ sagði hann. „Við eigum að fara varlega þegar um svona hluti er að ræða. Einhver okkar muna alla vega eftir bröggum sem entust býsna lengi og var þörf á sem búsetuúrræði“. Afdráttarlausastur var hann þegar hann sagðist „nú kannski ekki taka undir að það sé fordæmalaus skortur á húsnæði.“
Að mestu óbreytt frá síðasta þingi
Frumvarpið var áður lagt fram á síðasta þingi og var fundað um það ítrekað í umhverfis- og samgöngunefnd. Nefndin leitaði eftir umsögnum fjölda aðila í maí sl. en fáar skiluðu sér.
Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um frumvarpið í þeirri mynd komu fram nokkrar athugasemdir: skýra þyrfti þær undanþágur sem veita skal betur en þegar hafði verið gert, það er frá „hvaða ákvæðum skipulagslaga, laga um brunavarnir, laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og mannvirkjalaga“ yrðu veittar undanþágur. Verulegar breytingar virðast ekki hafa verið gerðar á frumvarpinu milli þinga og margt í útfærslu er enn skilið eftir í höndum ráðuneytis og opinberra stofnana. Þannig sagði ráðherra við framlagningu frumvarpsins nú: „Haft var samráð við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins við vinnslu frumvarpsins varðandi þær kröfur sem þar eru settar fram um brunavarnir. Lagt er til að sérstök brunahönnun skuli fara fram á húsnæðinu sem slökkviliðið þarf að samþykkja.“ Það eru ekki nýmæli, það var líka lagt til í frumvarpi síðasta árs.
Þá sagðist Heilbrigðiseftirlitið telja að það hámark sem sett var í lögunum að 250 manns gætu búið í einu húsnæði væri „mjög há tala“. Enn er þó miðað við það hámark í því frumvarpi sem Sigurður Ingi mælti fyrir á mánudag.
Nokkrar breytingar hafa nú verið gerðar á frumvarpinu. Sigurður Ingi sagði að undanþága verði aðeins veitt að uppfylltum skilyrðum sem hann tiltók: vottorð sé til staðar um öryggis- og lokaúttekt húsnæðis, það uppfylli „viðeigandi kröfur um brunavarnir, öryggi og hollustuhætti“, og það staðfesti byggingarfulltrúi, slökkvilið og heilbrigðiseftirlit áður en húsnæðið er tekið í notkun.
Frumvarpið ber nú yfirskriftina „Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna tímabundinna undanþágna frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.“