Hægt og bítandi er það að renna upp fyrir stjórnarflokkunum hvað gerðist þegar Bjarni Benediktsson sagði af sér sem fjármála- og efnahagsmálaráðherra og lýsti yfir að óvissa væri um hvernig spilað yrði úr stöðunni, óvissa um hvort raunhæft væri að halda áfram starfi ríkisstjórnarinnar. Bjarni benti á að ákvörðun hans og yfirlýsing hefði mikil áhrif á ríkisstjórnina og hann þyrfti að semja við aðra oddvita um framhaldið. Það er því augljós stjórnarkreppa á Íslandi. Vitað er að ríkisstjórnin getur ekki að óbreyttu haldið áfram og að ósamið er um framhaldið. Það er kallað stjórnarkreppa í öllum löndum. Nema á Íslandi, að því er virðist.
Í þessari stöðu ræðst útkoman af vilja og getu flokkanna. Framsókn og Vg standa báðir veikt, eru á sögulegum lágpunkti í skoðanakönnunum. Það er raunveruleg hætta á að Vg, flokkur forsætisráðherra, myndi falla af þingi ef kosið yrði nú. Framsókn fékk 13 þingmenn í kosningunum 2021 en mælist nú með fylgi sem gæfi þeim 4-5 þingmenn. Þessi flokkar óttast kosningar, eru nánast til í hvað sem er til að forða þeim.
Og það setur Sjálfstæðisflokkinn í sterka stöðu, ef hann vill halda áfram stjórnarsamstarfinu. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn standi illa í sögulegu samhengi í könnunum þá hefur hann ekki hlutfallslega misst frá sér jafn marga kjósendur. Og innan flokksins er vissa um að flokkurinn bjargi sér í kosningum, hafi til þess mannafla, styrk og fé. Sjálfstæðisflokkurinn hefur því ekki öllu að tapa eins og Framsókn og Vg ef kosningar verða niðurstaðan.
Því miður hafa fjölmiðlar á landinu ekki áttað sig á að það sé stjórnarkreppa í landinu. Athygli þeirra hefur snúið að stöðu ráðherra, hver gæti farið í hvaða ráðuneyti, eins og stjórnarkreppa sé fyrst og síðast persónulegt mál þeirra sem eru ráðherrar hverju sinni. Af þessum sökum eru engar fréttir af stærsta fréttamálinu, stjórnarkreppunni. Hverjar eru kröfur Bjarna og Sjálfstæðisflokksins? Er verið að kanna aðra kosti en kosningar, til dæmis nýtt stjórnarmynstur? Hversu langt vill Katrín ganga til að halda stöðu sinni sem forsætisráðherra?
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins var Bjarni spurður í hvaða ráðuneyti hann ætlaði en þegar hann sagði að oddvitar ríkisstjórnarinnar væru ekki komnir að umræðu um ráðuneyti þagnaði fréttamaðurinn, spurði ekki um hvað væri verið að semja.
Vanalega eru svör við spurningum fréttin. Við erum hins vegar dottin inn í svo skrítna tíma að spurningar eru kannski líka fréttin. Hvers vegna fjalla fjölmiðlar ekki um stjórnarmyndunarviðræðurnar sem standa yfir?