Miðað við hvernig það gengur að ákæra Sindra Snæ Birgisson og Ísidór Nathansson þá er full ástæða til þess að hafa litla trú á því að það muni hafa alvarlega afleiðingar fyrir þá að hafa skipulagt hryðjuverk í anda Anders Breivik á Íslandi. Í dag var ákærulið um undirbúning hryðjuverka í máli þeirra enn og aftur vísað frá við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Líkt og í fyrra skiptið þá er málinu vísað frá því dómara finnst ákæran ekki nógu skýr. Með öðrum orðum þá er kvartað undan því að í ákærunni komi ekki fram hvenær og hvar hryðjuverkin áttu að fara fram. Það má í raun útskýra með því að ráðabrugg þeirra var ekki komið svo langt. Í seinni ákæru Héraðssaksóknara var farið ítarlega yfir samskipti þeirra tveggja og er alveg ljóst við lestur á þeim að þeim var alvara.
Sjá einnig: Svona vonuðust Sindri og Ísidór til þess að verða frægir: „Ég hef miklar væntingar“
Það má segja að þeir hafi verið á því stigi að velta fyrir sér ýmsum möguleikum. Þau hafi verið á teikniborðinu. Þegar þeir voru handteknir voru þeir þó líkleg komnir á skipulagsstigið, höfðu mælt götur til að sjá hvort þær hentuðu vel til að keyra niður margmenni. Sindri og Ísidór virðast hafa stefnt að því að fremja hryðjuverkin á Gleðigöngunni, ef marka má samskipti þeirra.
Einnig voru þeir langt komnir með að útvega föt svo þeir gætu dulbúið sig sem lögreglumenn, líkt og Breivik. Í samskiptum þeirra kemur mjög skýrt fram að þeir hugðust dulbúa sig sem lögreglumenn í mögulegum hryðjuverkum til að skapa ringulreið á vettvangi. En dómari í málinu sagði í dag sagðist ekki skilja hvernig áform um að útvega lögreglubúning tengist ætlaðri ákvörðun um að fremja hryðjuverk.
Úr þessu má teljast hæpið að Héraðssaksóknari muni takast að ákæra þá Ísídór og Sindra fyrir að skipuleggja hryðjuverk. Dómarar virðast horfa það þröngt á lögin að það þyrfti helst að handtaka tilvonandi hryðjuverkamenn þann sama dag og þau voru skipulögð að eiga sér stað. Svo til að sé hægt að rétta yfir mönnum sem skipuleggja hryðjuverk þá þurfa þeir að vera búnir að negla niður stað og stund. Fram að því þurfa þeir ekki að hafa áhyggjur.