„Það heyrir til undantekninga að maður ræði við afgreiðslufólk á íslensku og þegar gert er lítið úr óöryggi fólks með þá staðreynd, og sagt af léttúð að maður geti nú alveg bjargað sér á ensku úti í búð, þá er kannski vert að benda frekar á hvaða skilaboð það sendir börnum að ekki sé hægt að tala annað tungumál en ensku úti í búð. Sagt er að börn læri það sem þeim er sýnt, en ekki það sem þeim er sagt. Þau hljóta að draga þá ályktun af svona aðstæðum að íslenskan sé eins konar heimilismál, en enskan sú sem töluð er á meðal fólks. Sama hve oft við segjum að íslenska sé mál fyrir allar aðstæður.“
Þetta skrifa Snorri Másson fjölmiðlamaður í pistli sem hann birtir í nýjum fjölmiðli, ritstjori.is. Pistilinn má lesa í heild sinni hér, en í honum segir Snorri á að það stefni í sögulegt stórslys á Íslandi. Allt bendi til þess að raunveruleg hætta sé á því að íslenska muni í nákominni framtíð bætast í hóp ótal útdauðra tungumála. Að íslenska verði eins og írska, mál sem einungis sérvitringar og fræðimenn skilja, meðan þjóðin talar ensku. Merki um þetta eru ótal mörg og Snorri nefnir nokkur svo sem að kallkerfi í líkamsræktarstöð í Reykjavík segir við gesti: „You’re awesome. Thank you for returning your weights.“
Snorri hikar ekki við að draga fram ábyrgð á þessu ástandi, þetta sé getuleysi stjórnvalda og græðgi fyrirtækjaeigenda að kenna. „Það hefur sýnt sig að fögur fyrirheit um að kenna útlendingum íslensku hafa að mestu leyti brugðist enda lærir aðeins mikill minnihluti innflytjenda íslensku. Í samtölum sem ég hef átt við innflytjendur hafa margir búið hér árum saman en aldrei séð ástæðu til þess að læra íslensku. Sjónarmið þeirra eru yfirleitt skiljanleg,“ skrifar Snorri og heldur áfram:
„Atvinnurekendur eru stundum „hvattir“ til að bæta aðstæður fólks til að læra íslensku, en vægðarlaus markaðslögmálin eru öll á annan veg. Hvorki vinnuveitendur né starfsmenn hafa brýna hvata til þess að fólk læri íslensku og þeir sem ákveða að læra málið, gera það oft einfaldlega af áhuga.“
Mesta ábyrgð ber þó sennilega Lilja Alfreðsdóttir, sem hefur verið menntamálaráðherra í sjö ár. En Snorri bendir á að þessi þróun hafi einmitt versnað mikið undanfarin ár.
„Íslensk málnefnd, skipuð af menntamálaráðherra, virðist ekki fær um leggja fullnægjandi mat á stöðu tungumálsins á þessari stundu og semur í staðinn ályktanir sem hefjast á hástemmdum yfirlýsingum um ágæti ríkjandi stjórnvalda. Fyrst segir nefndin að framan af hafi lítið farið fyrir opinberri stefnumörkun vegna nýtilkominnar fjölmenningar í landinu, litlir fjármunir hafi ratað í slíkt starf, en að svo hafi það lagast: „Síðustu fimmtán ár hefur árvekni stjórnvalda aukist.“ Þetta er undarleg framsetning. Fyrir fimmtán árum var staða tungumálsins margfalt betri en hún er í dag. Svo datt árvekni stjórnvalda inn og síðan hefur staðan versnað til muna á nær öllum sviðum? Kannski að maður biðji stjórnvöld þá vinsamlegast um að snerta ekki framar á málaflokknum,“ skrifar Snorri.
„Minnsta árvekni ætti að minnsta kosti að gera okkur morgunljóst að íslenskum stjórnvöldum hefur mistekist alveg að tryggja að innflytjendur hafi hvata og fái tækifæri til að læra íslensku.“