Stígamót styðja frumvarp Arndísar Önnu um leiðréttingu á „ómannúðlegum lögum“ um útlendinga

Stígamót hafa sent inn umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, til að afnema þá þjónustusviptingu sem sett var í lög síðasta vor. Umsögnin hefst jafn skýrt og greinilega og kostur er:

„Stígamót lýsir yfir stuðningi við frumvarpið sem hér er til umsagnar.“

Í knöppu máli greina Stígamót frá afleiðingum þjónustusviptingarinnar eins og hún birtist samtökunum:

„Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum hafa skjólstæðingar Stígamóta verið sviptir þjónustu á grundvelli nýrra útlendingalaga sem tóku gildi 1. júlí síðastliðinn og heimiluðu þjónustusviptingu. Sérstaklega hefur mál Blessing Uzoma verið í kastljósinu en hún var þolandi mansals árum saman áður en hún leitaði skjóls hér á landi fyrir tæpum fimm árum síðan. Henni, ásamt tveimur öðrum konum frá Nígeríu, var hent út á götu úr úrræðum ríkislögreglustjóra þann 11. ágúst 2023 vegna „skorts á samstarfsvilja“. Samstarfið átti að felast í því að þær samþykktu að fara af landi brott innan 30 daga. Þær gátu ekki samþykkt það því í því felst að leggja líf sitt og heilsu í hættu. Nýju lögin sem heimila þjónustusviptingu eru að okkar mati ómannúðleg og setur fólk í ómögulegar aðstæður þar sem því eru allar bjargir bannaðar.

Ef ekki væri fyrir einstaklinga og félagasamtök sem gripu fólk hefðum við í alvöru verið í þeirri stöðu að brotaþolar viðbjóðslegs ofbeldis myndu svelta og ekki eiga húsaskjól.

Andstöðu okkar við ómannúðleg lög og ómannúðlega framkvæmd laganna verður varla lýst með orðum og þar með stuðningi okkar við þetta sérstaka mál sem hér er til umsagnar.

Virðingarfyllst fyrir hönd Stígamóta,

Drífa Snædal, talskona“

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir mætli fyrir frumvarpinu í upphafi yfirstandandi þings, þann 19. september. Að baki því standa þingmenn Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar.

Þegar hafa ÖBÍ réttindasamtök, UN Women, Amnesty International, Embætti landlæknis, Kvenréttindafélag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp, Rauði krossinn á Íslandi, Samhjálp, félagasamtök og Toshiki Toma, prestur innflytjenda, lýst yfir stuðningi við frumvarpið með innsendum umsögnum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí