Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, vill að stjórnvöld geti afgreitt umsóknir um alþjóðlegavernd og leitt til niðurstöðu án þess að umsækjendum sé skipaður talsmaður. Ráðuneyti hennar vinnur nú aftur að frumvarpi um breytingar á Útlendingalögum til að þrengja enn að rétti umsækjenda. Þessi áform, sem nú hafa verið kynnt í Samráðsgátt stjórnvalda, snúast að öllu leyti um að skerða enn rétt umsækjenda um alþjóðlega vernd. Meðal annars er lagt til að afnumin verði heimild til að veita umsækjendum dvalarleyfi hafi stjórnvöld tafið við afgreiðslu umsókna þeirra í 18 mánuði eða lengur.
Þessi áform um skerðingu réttinda er rökstudd með skírskotun til skilvirkni, hagkvæmni og „samþættingar“ við önnur Norðurlönd.Í greinargerð um áformin kemur fram að ráðuneytið hafi þegar átt samráð um við Útlendingastofnun og Kærunefnd útlendingamála um breytingarnar.
Stjórnvöld megi brottvísa óháð töf í vinnslu
Þær fyrirhuguðu breytingar sem nú eru viðraðar í Samráðsgátt eru í nokkrum liðum og gerir ráðuneytið mis-skilmerkilega grein fyrir þeim. Í fyrsta lagi hyggst ráðherra breyta 2. málsgrein 36. greinar laganna. Í núverandi mynd kveður hún á um að hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hljóta vernd í öðru ríki þá skuli honum þó ekki sjálfkrafa brottvísað í krafti Dyflinnarreglugerðarinnar heldur umsókn hans tekin til efnismeðferðar ef hann „hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæla annars með því.“
Í öðru lagi hyggst ráðherra breyta 1. málsgrein 74. greinar laganna um mannúðarleyfi og fella burt 2. málsgrein sömu greinar. 74. greinin fjallar um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, eða mannúðarleyfi eins og þau hafa verið kölluð. Þau eru millistig í verndarmálum, sem felur í sér minni skuldbindingu en að viðurkenna stöðu manneskju sem flóttamanns. Í núverandi mynd heimilar 2. málsgrein þessarar greinar stjórnvöldum að veita umsækjanda mannúðarleyfi ef þau hafa tafið við afgreiðslu umsóknar hans í 18 mánuði. Þrátt fyrir að í greinargerð um þessi áform sé sjö sinnum minnst á skilvirkni þykir ráðherra eitt og hálft ár ekki nógu rúmur tími til afgreiðslu mála og vill vera viss um að geta brottvísað umsækjendum óháð því hve lengi þeir hafa verið látnir bíða.
Ekki kemur fram í áformunum hvaða breytingar ráðherrann vill gera á fyrstu málsgreininni, en þar eru lagðar meginlínur um mannúðarleyfin yfirleitt: „geti hann sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna,“ og svo framvegis. Í ljósi allra þeirra breytinga sem ráðherrann leggur til virðist óhætt að gera gera ráð fyrir að henni þyki heldur rúmt um réttindi fólks í þessu ákvæði.
Afgreiða megi mál án þess að skipa umsækjanda talsmann
Í þriðja lagi er í áformunum nefnd 77. grein laganna, um veitingu bráðabirgðardvalarleyfis eftir synjun umsóknar. Ekki kemur fram hvaða breytingar eru ráðgerðar á því ákvæði en óhætt að gera ráð fyrir að þær stefni allar í eina átt. Þá segist ráðherra, í þessum áformum, ætla að breyta skipan kærunefndar útlendingamála „með það að markmiði að hámarka skilvirkni við meðferð og úrlausn kærumála.“ Meira um það að neðan.
Að síðustu segist ráðherra hafa í hyggju að breyta 30. grein laganna um þjónustu talsmanna við umsækjendur um vernd. Þetta er lykilgrein um réttindavörslu, sem hefst á eftirfarandi orðum: „Umsækjandi um alþjóðlega vernd á rétt á að Útlendingastofnun skipi honum talsmann við meðferð málsins hjá stjórnvöldum. Sá réttur helst við mögulega kærumeðferð. Talsmaðurinn skal vera lögfræðingur með þekkingu á málum er lúta að alþjóðlegri vernd og flóttafólki.“ Ráðherra segist nú ætla að leggja til „að Útlendingastofnun verði í ákveðnum tilvikum heimilt að afgreiða mál án þess að skipaður sé talsmaður.“ Með öðrum orðum er hugmynd ráðherra sú að afnema þann rétt umsækjenda, sem þó er viðurkenndur í núverandi löggjöf, að einhver sem þekkir til kerfisins – lögfræðingur – tali máli þeirra og standi vörð um hagsmuni þeirra innan þess. Sú gagnrýni hefur komið fram á núverandi talsmannakerfi að talsmenn hælisleitenda séu háðir Útlendingastofnun fjárhagslega og því ekki sjálfstæðir gagnvart henni. Sú tillaga ráðherra sem nú er komin fram, að umsóknir verði „í ákveðnum tilvikum“ afgreiddar án aðkomu talsmanna yfirleitt hefur ekki heyrst á opinberum vettvangi áður.
Tvö frumvörp liggja þegar fyrir þinginu
Fyrir þinginu liggja þegar tvö frumvörp um afmarkaðar breytingar á lögum um útlendinga. Annars vegar er það frumvarp Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um leiðréttingu á þeirri lykilbreytingu sem gerð var á lögunum síðasta vor, um réttindasviptingu allra umsækjenda um vernd 30 dögum eftir synjun. Hins vegar frumvarp Birgis Þórarinssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem vill gera breytingu í hina áttina, og í reynd afnema það hlutverk sem Kærunefnd útlendingamála gegnir, með því að ráðherra skipi alla meðlimi nefndarinnar að tillögu Hæstaréttar. Þetta rökstyður þingmaðurinn með því að „hlutleysi nefndarmanna“ sé þannig betur tryggt en nú þegar Mannréttindaskrifstofa Íslands annast tilnefningar, enda eigi aðild að henni of mörg samtök sem láta sig mannréttindi útlendinga varða. Frumvarpi Birgis hefur aðeins verið útbýtt, en Arndís Anna mælti fyrir sínu frumvarpi strax í upphafi þings.
Sá er auðvitað munurinn á þessum frumvörpum báðum og því sem ráðherra hefur nú lagt fram að þingmannafrumvörp verða oftast ekki að lögum, sem frumvörp ráðherra verða hins vegar. Hins vegar virðist tilefni til að gera ráð fyrir, þegar ráðherra segist áforma að gera breytingar á skipan kærunefndarinnar „með það að markmiði að hámarka skilvirkni“, að þá eigi hún við eitthvað í ætt við það sem Birgir Þórarinsson lagði til með frumvarpi sínu, enda virðist mega ætla, frá þeim sjónarhóli sem birtist í greinargerð ráðherra fyrir þessum áformum, að mannréttindasjónarmið séu fyrst og fremst dragbítur á skilvirkni.
Í þeirri greinargerð um áformin sem nú liggja fyrir kemur fram að ráðuneytið hafi þegar „haft samráð við Útlendingastofun og kærunefnd útlendingamála“ um fyrirhugaðar breytingar.