Á þriðjudag og miðvikudag í þessari viku heldur Jens Stoltenberg, aðalritari NATO, til Stokkhólms, þar sem hann mun taka þátt í Iðnaðarþingi NATO (NATO-Industry Forum) og flytja ræðu um „þörfina á að mæta nýjum raunveruleika öryggis og áætlana“. Þetta kemur fram í tilkynningu bandalagsins.
Það er ekki furða að Stoltenberg mæti enda er þingið skipulagt af honum sjálfum, eða skrifstofu hans, í samstarfi við aðrar deildir NATO. Í fyrri umfjöllun um þingið kemur fram að það sé vettvangurinn þar sem fulltrúar iðnaðarins og NATO mætast. Í ár verði byggt á ákvörðunum sem teknar hafa verið af leiðtogum aðildarríkja, einkum þeim sem tengjast áætlun bandalagsins um framleiðslu í þágu varnarmála (Defence Production Action Plan), sem samþykkt var á fundi leiðtoga ríkjanna í Vilníus í sumar.
Í kynningu bandalagsins á iðnþinginu er mikið um orðið nýsköpun og önnur tengd tískuorð, þar sem þau eru sett í samhengi við hergagnaframleiðslu, en fyrr í ár var einmitt tilkynnt um stofnun Nýsköpunarsjóðs NATO.