Svona varði Ísland það val að sitja hjá þegar SÞ kölluðu eftir mannúðarhléi

Á föstudag kaus Ísland, á vettvangi Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, að sitja hjá við afgreiðslu ályktunar þar sem kallað var eftir því að gert verði „mannúðarhlé“ á átökunum á Gasa. Meirihluti ríkja heims greiddi atkvæði með tillögunni sem varð þar með að ályktun.

Áður en tillagan var tekin til atkvæðagreiðslu bar fulltrúi Kanada á Allsherjarþinginu fram breytingatillögu, og lagði til að bætt yrði við texta ályktunarinnar ítrekun á fordæmingu á árásinni sem Hamas-liðar frömdu þann 7. október síðastliðinn. Sú breytingatillaga var felld í atkvæðagreiðslu. Upprunaleg tillaga var því borin undir atkvæði án slíkrar breytingar.

Afstaða Íslands, eins og fastafulltrúi landsins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna gerði grein fyrir henni, var að þar með væri áskorunin um mannúðarhlé orðin ótæk. Í ræðu þar sem hann gerði grein fyrir afstöðu landsins sagði Jörundur Valtýsson: „Ísland studdi breytinguna sem Kanada lagði til, sem hefði bætt afar mikilvægu samhengi og jafnvægi við ályktunina. Íslandi þykir miður að breytingin hafi ekki hlotið samþykki. Á meðan þau grundvallaratriði vantar, ákvað Ísland að sitja hjá við afgreiðslu ályktunarinnar sem Jórdanía lagði fram, þrátt fyrir að styðja marga lykilþætti hennar, ekki síst hvað varðar mannúðarmál.“

120 ríki greiddu atkvæði með tillögunni, 12 ríki greiddu atkvæði gegn henni, þar fóru Bandaríkin og Ísrael fremst í flokki. Að meðtöldu Íslandi sátu 45 ríki hjá.

Hér fyrir neðan fylgir íslensk þýðing ræðunnar sem Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, flutti Allsherjarþinginu, í umboði ríkisstjórnarinnar, föstudaginn 27. október 2023.

Ísland gerir grein fyrir ákvörðun sinni

„Herra forseti.

Við mætumst á þessum neyðarfundi andspænis enn einum harmleiknum fyrir milljónir Ísraela og Palestínumanna, ásamt vonbrigðum yfir ógöngum í Öryggisráðinu. Ísland studdi breytinguna sem Kanada lagði til, sem hefði bætt afar mikilvægu samhengi og jafnvægi við ályktunina. Íslandi þykir miður að breytingin hafi ekki hlotið samþykki. Á meðan þau grundvallaratriði vantar, ákvað Ísland að sitja hjá við afgreiðslu ályktunarinnar sem Jórdanía lagði fram, þrátt fyrir að styðja marga lykilþætti hennar, ekki síst hvað varðar mannúðarmál.

Það er óheppilegt að samstaða hafi ekki náðst um ályktun til að mæta hinu alvarlega mannúðarástandi og þörf á áþreifanlegum aðgerðum til að vernda óbreytta borgara og greiða fyrir öruggri veitingu mannúðaraðstoðar.

Herra forseti, Ísland tekur undir ákall um mannúðarhlé til að auðvelda örugga veitingu mannúðaraðstoðar um gjörvallt Gasa-svæðið. Öruggan og óhindraðan mannúðaraðgang verður að tryggja. Óbreytta borgara og eignir þeirra, heilbrigðisstarfsfólk og mannúðarstarfsfólk og eignir verður að vernda.

Við hörmum hrikalega þjáningu saklausra, almennra borgara og þær þúsundir, að meðtöldum konum, börnum og starfsfólki Sameinuðu þjóðanna, sem hafa verið drepin. Við erum uggandi yfir áhrifum fjöldabrottflutninga óbreyttra borgara á Gasa. Við verðum að hindra frekari stigmögnun, í þágu Ísraela, Palestínumanna og svæðisins umleikis. Um allan heim kyndir þetta viðvarandi ofbeldi undir elda haturs, andsemítisma, islamófóbíu og rasisma.

Herra forseti, Ísland er þakklátt aðalritara Sameinuðu þjóðanna fyrir þrotlausa viðleitni hans til að tryggja brýna veitingu mannúðaraðstoðar til lífsbjargar óbreyttum borgurum á Gasa. Við tökum undir ákall hans eftir mannúðaraðstoð til óbreyttra borgara á Gasa, sem eru í sárri þörf fyrir mat, vatn, skjól og aðhlynningu. Við fögnum opnun landamæranna við Rafah og við vegsömum mannúðarstarfsfólkið sem vinnur nótt sem dag við að greiða fyrir brýnni afhendingu mannúðaraðstoðar.

Meiri aðstoðar er þörf og hennar er þörf núna. Tíminn er á þrotum. Ísland hefur svarað neyðarákalli Sameinuðu þjóðanna með viðbótarframlagi til UNRWA, langvarandi félaga okkar í mannúðarstarfi og fremstu stofnunar Sameinuðu þjóðanna er falið hefur verið að styðja við palestínskt flóttafólk. Við brýnum aðra gefendur til að auka við stuðning sinn til hinnar mikilvægu veitingu aðstoðar á vettvangi, til íbúa Gasa.

Að síðustu, herra forseti, verðum við að brjótast út úr þessum vítahring ofbeldis og vinna í átt að sjálfbærri pólitískri lausn. Alþjóðleg viðmið fyrir langvarandi sjálfbæra lausn á átökunum eru skýr: Tveggja ríkja lausn á grundvelli alþjóðalaga, þar sem Ísrael og Palestína lifa hlið við hlið, við frið, öryggi og gagnkvæma viðurkenningu. Jafnvel í miðju hættuástandi megum við ekki láta undan ofbeldi og hatri. VIð megum ekki missa vonina, jafnvel þegar friður virðist óraunhæfur og fjarlægur. Við verðum að koma friðarferlinu aftur á sporið. Annars hættum við á að viðhalda vítahring ofbeldis og að mannúðaraðstæðum hraki enn frekar, öllum til tjóns.

Ég þakka þér, herra forseti.“

Upprunalegur enskur texti / Original English version

„Mr. President,

we are convening this emergency special session against the backdrop of another great tragedy for millions of Israelis and Palestinians and a disappointing impasse in the Security Council. Iceland supported the amendment proposed by Canada, which would have added a much-needed context and balance to the resolution. Iceland regrets that the amendment did not pass. Without the inclusion of those essential elements, Iceland decided to abstain on the resolution tabled by Jordan, despite supporting many of its key elements, notably on the humanitarian front.

It is unfortunate that consensus could not be reached on a resolution to address the grave humanitarian situation and the need for concrete action to protect civilians and facilitate the safe delivery of humanitarian assistance.

Mr. President, Iceland joins the calls for humanitarian pause to facilitate the safe delivery of humanitarian aid throughout Gaza. Safe and unimpeded humanitarian access must be ensured. Civilians and civilian objects, medical personnel, and humanitarian workers and assets must be protected.

We deplore the immense suffering of innocent civilians and the thousands, including women, children, and UN personnel that have been killed. We are alarmed by the impact of mass evacuations of civilians in Gaza. We must prevent further escalation for the sake of Israelis, Palestinians, and the wider region. Across the world, this continuous violence is fuming the flames of hate, anti-Semitism, Islamophobia, and racism.

Mr. President, Iceland is grateful to the UN Secretary General for his tireless efforts to ensure the urgent delivery of life-saving humanitarian assistance to the civilian population of Gaza. We echo his calls for humanitarian aid to the civilian population of Gaza so desperately in need of food, water, shelter, and medical care. We welcome the opening of the Rafa crossing and we commend the humanitarian personnel working night and day to facilitate the urgent delivery of humanitarian assistance.

More aid is needed and it is needed now. Time is running out. Iceland has responded to UN emergency appeals with an additional contribution to UNRWA, our long-standing humanitarian partner, and the lead UN agency mandated with supporting Palestine refugees. We urge other donors to step up their support to UNRWA’s critical frontline delivery of aid to the people of Gaza.

To conclude, Mr. President, we must break out of this vicious cycle of violence and work towards a sustainable political solution. The international parameters for a long-term sustainable solution to the conflict are clear. A two-state solution based on international law with Israel and Palestine living side-by-side in peace and security and mutual recognition. Even in the midst of crisis, we must not give in to violence and hate. We must not lose hope even when peace seems unrealistic and distant. We must put the peace process back on track. Otherwise we run the risk of perpetuating the cycle of violence and humanitarian conditions, deteriorating even further to the detriment of everyone.

I thank you, Mr. President.“

Upptöku af fundinum öllum má finna hér. Ræða Íslands hefst upp úr 36:33.

Viðbót eftir birtingu: Daginn eftir að Samstöðin birti þýðinguna að ofan birti Utanríkisráðuneytið sína eigin þýðingu á ræðu fastafulltrúans, hér.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí