Utanríkisráðherra hyggst skipa starfshóp til að meta umfang „gullhúðunar EES-gerða“ og leggja til tillögur að úrbótum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu í dag, föstudag. Þar er hugtakið útskýrt nánar:
„Athugasemdir og dæmi um að EES-gerðir séu innleiddar með svokallaðri „gullhúðun“ hafa komið fram að undanförnu en með því er átt við það þegar stjórnvöld herða á reglum EES-gerða eða bæta við heimasmíðuðum ákvæðum í innleiðingarfrumvörp sem ekki leiða af skuldbindingum samkvæmt EES-samningnum.“
Í tilkynningunni er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, utanríkisráðherra að: „gullhúðun leggur í senn byrðar á atvinnulífið og getur grafið undan trausti á EES-samningnum til lengri tíma litið. Nauðsynlegt er að gera úttekt á þeim tilvikum þar sem gullhúðun hefur komið upp og greina umfang hennar og til hvaða úrbóta sé hægt að grípa í einstökum tilvikum og bæta verklag. Eðli málsins samkvæmt er mikilvægt að slík úttekt verði unnin með aðkomu atvinnulífsins og óháðra sérfræðinga, enda þótt stjórnsýslan þurfi að styðja við slíka vinnu.“
Þá segir að undanfarið hafi verið „bent á dæmi þar sem innleiðing hefur verið umfram kröfur EES-reglna án þess fyrir hafi legið nægjanlegur rökstuðningur eða kostnaðarmat og atvinnulífið bent á verulegan kostnaðarauka vegna viðkomandi innleiðingar, umfram það sem nauðsynlegt hefði verið.“
Á síðasta þingi lagði hópur þingmanna fram fyrirspurn um þetta sama viðfangsefni. Var þar meðal annars talað um það „þegar stjórnvöld einstakra ríkja herða á íþyngjandi reglum EES-gerða til að ná fram sérgreindum markmiðum á heimavelli eða „lauma“ heimasmíðuðum ákvæðum inn í innleiðingarfrumvörp.“ Vinnan framundan virðist eiga upphaf sitt þar.