Í fréttatilkynningu sem ASÍ birti á mánudag er greint frá því að Evrópusamtök verkalýðsfélaga (ETUC) hvetji stjórnvöld til að leggja hvalrekaskatt á banka og aðra geira sem hagnast á háu vaxtastigi í álfunni. Tilkynning ASÍ er svohljóðandi:
„Vilja hvalrekaskatt á ofsagróða banka
Verkalýðsfélög í Evrópu hvetja stjórnvöld til að leggja hvalrekaskatt á banka sem hagnast gríðarlega vegna vaxtahækkana.
Í liðinni viku tilkynnti Seðlabanki Evrópu að stýrivöxtum yrði haldið óbreyttum eftir að hafa hækkað þá tíu sinnum það sem af er ári. Vextir hafa aldrei verið hærri frá því að evran var innleidd sem gjaldmiðill í ársbyrjun 2002.
Bein afleiðing þessa er ofsagróði banka og hækkandi arðgreiðslur til hluthafa.
Esther Lynch, framkvæmdastjóri Evrópusamtaka verkalýðsfélaga (ETUC), segir blasa við að vaxtahækkanir komi af fullum þunga niður á launafólk í álfunni og það sé í senn óréttlátt og skili ekki tilætluðum árangri. „Fólki sem þarf að taka lán til að kaupa bíl til að komast til vinnu eða þak yfir höfuðið eða, eins og færist mjög í vöxt, að eiga fyrir reikningunum, er gert að greiða sífellt hærri og ósanngjarnari vexti. Peningarnir rata beint í vasa moldríkra bankastjóra og hluthafa helstu banka.”
Siðlausar afleiðingar kreppuástands
Hún bætir við að aukinn lánakostnaður stuðli að gjaldþroti fleiri fyrirtækja. Við það fækki störfum auk þess sem dragi úr fjárfestingum einkaaðila á sama tíma og þörf sé á margföldum fjárfestingum til að greiða fyrir tilkomu græna og stafræna hagkerfisins.
„Við þurfum að stöðva siðlausar afleiðingar þessa kreppuástands með því að leggja hvalrekaskatta á banka og önnur fyrirtæki og geira sem hagnast sem aldrei fyrr vegna hærri vaxta sem almenningur greiðir,” segir framkvæmdastjórinn.“
Af vef ASÍ.