Friðar- og umbótasinnar í Ísrael gagnrýna ónærgætni vinstrisins á heimsvísu

Ísraelski sagnfræðingurinn Yuval Noah Harari hefur tekið undir með umbótasinnuðum fræðimönnum og friðarsinnum í Ísrael og yfirlýsingu þeirra um þann skaða sem þau segja ákveðna hluta vinstrisins valda með því að taka ekki einarða afstöðu gegn árásum Hamas laugardaginn 7. október. Þetta kom fram í frétt The Guardian í gær, þriðjudag.

Í yfirlýsingunni segir meðal annars: „Við viljum leggja áherslu á að það er engin mótsögn á milli einarðrar andstöðu við undirokun og hernám Ísraels gegn Palestínumönnum og afdráttarlausrar fordæmingar á hrottafengnum ofbeldisverknaði gegn saklausum borgurum. Í reynd verður hver sjálfum sér samkvæmur vinstrimaður að halda hvorri tveggja afstöðunni til streitu samtímis.“

Sleginn yfir skorti á samstöðu

Harari er mörgum Íslendingum kunnur fyrir bók sína Sapiens: Mannkynssaga í stuttu máli, sem kom út í íslenskri þýðingu árið 2019. Í umfjöllun The Guardian er greint frá því að á undanliðnum árum hafi hann orðið sýnilegri í stjórnmálum Ísraels, sem aðgerðasinni gegn ríkisstjórn Benjamins Netanyahu og hægriöflunum að baki henni.

Miðillinn hefur eftir Harari að hann hafi verið „sleginn af því að heyra sum viðbrögð fólks sem ekki aðeins fordæmdi ekki Hamas heldur varpaði allri ábyrgð á Ísrael“ og að sjá „skortinn á samstöðu andspænis hinum hræðilegu árásum á óbreytta ísraelska borgara.“ Í samtali við blaðamann The Guardian sagði Harari að hugsanlega byggði sá skortur á „trú eða órum um að algjört réttlæti sé mögulegt, þar sem annað lðiði er algjörlega ábyrgt fyrir öllu, að meðtöldum þeim glæpum sem hitt liðið fremur.“

Yfirlýsingin sem Harari tekur nú undir birtist í liðinni viku, meðal annars í Newsweek og El País. Þar má einnig finna nöfn þeirra 75 sem undirrituðu yfirlýsinguna við birtingu, en nokkuð hefur bæst í hópinn síðan þá, samkvæmt umfjöllun The Guardian. Yfirlýsingin fylgir hér á eftir, í lauslegri þýðingu.

„Varðandi deilur um nýorðna atburði í okkar heimshluta

Við, fræðimenn í Ísrael, áhrifafólk í hugsun og umbótasinnaðir aktívistar, skuldbundin friði, jöfnuði, réttlæti og mannréttindum, finnum til og erum slegin af nýorðnum atburðum á þessum slóðum. Ónægilegt viðbragð ákveðinna bandarískra og evrópskra vinstrimanna varðandi árásir Hamas á óbreytta ísraelska borgara veldur okkur líka verulegum áhyggjum, viðbragð sem sýnir óhugnanlegar tilhneigingar í stjórnmálamenningu vinstrisins á heimsvísu.

Þann 7. október 2023 hóf Hamas fordæmalausa árás sem innihélt fjöldamorð saklausra borgara á heimilum þeirra, ómælt ofbeldi gegn konum, öldruðum og börnum og mannrán fjölda ísraelskra borgara. Heilar fjölskyldur voru þurrkaðar út í þessu blóðbaði, heil nærsamfélög voru gerð að ösku, líkamar voru limlestir og fjöldi barna var drepinn.

Engin orð eru of stór til að lýsa skaðanum sem þessir atburðir ollu, bæði persónulega og samfélagslega. Atburðir þessa laugardags í október ollu áfalli og munu skilja eftir sig varanleg ummerki á hjörtum okkar og í minningum okkar.

Eins og búast mátti við brást Ísraelsríki við aðgerðum Hamas með umfangsmikilli hernaðaraðgerð á Gasa. Við getum enn ekki lagt mat á fjölda dauðsfalla í þessum árásum en líklegt er að hann verði hærri en nokkuð sem við höfum orðið vitni að til þessa. Þessi vítahringur árása grefur alvarlega undan langvarandi baráttu okkar gegn kúgun og ofbeldi og fyrir fullum réttindum og jöfnuði allra íbúa Ísrael-Palestínu. Á þessari stundu, fremur en nokkru sinni, þurfum við stuðning og samstöðu vinstrisins á heimsvísu, í mynd afdráttarlausrar kröfu gegn ómældu ofbeldi í garð óbreyttra borgara beggja vegna.

Margir jafnokar okkar víða um heim hafa tjáð sterka andstöðu gegn árásum Hamas og hafa sýnt þolendum þeirra ótvíræðan stuðning. Áberandi raddir í Arabaheiminum hafa einnig gert ljóst að engin réttlæting er fyrir sadískum morðum á saklausu fólki. Hins vegar hafa, okkur til skelfingar, sumar deildir vinstrisins á heimsvísu, einstaklingar sem fram til þessa voru pólitískir bandamenn okkar, brugðist af fálæti við þessum hræðilegu viðburðum og stundum jafnvel réttlætt aðgerðir Hamas.

Sumir hafa neitað að fordæma ofbeldið og halda því fram að utanaðkomandi hafi engan rétt á að dæma aðgerðir hinna kúguðu. Aðrir hafa gert lítið úr þjáningunni og áfallinu og haldið því fram að ísraelskt samfélag hafi leitt þennan harmleik yfir sig sjálft. Enn aðrir hafa varið sig frá siðræna áfallinu með sögulegum samanburði og rökleiðingum. Þeir eru jafnvel til – og ekki fáir – sem líta á myrkasta daginn í sögu samfélags okkar sem tilefni til fögnuðar.

Þessi röð viðbragða kom okkur í opna skjöldu. Við létum okkur aldrei hugkvæmast að einstaklingar innan vinstrisins, talsmenn jöfnuðar, frelsis, réttlætis og velferðar, myndu afhjúpa svo öfgafulla siðræna ónærgætni og pólitíska vangá.

Tölum skýrt: Hamas er kúgandi guðveldishreyfing sem er heiftúðlega mótfallin tilraunum til að koma á friði og jöfnuði í Mið-Austurlöndum. Lykilstefnumál hennar eru í grundvallaratriðum ósamræmanleg meginviðmiðum umbótastefnu, og því er tilhneiging ákveðinna vinstrisinna til að bregðast með jákvæðum hætti við aðgerðum hennar alfarið fáránleg.

Ennfremur er engin réttlæting til fyrir því að skjóta óbreytta borgara á heimilum þeirra, engin rökleiðing fyrir því að myrða börn fyrir framan foreldra þeirra, enginn rökstuðningur fyrir ofsóknum og aftökum fólks að skemmta sér. Að veita þessum aðgerðum lögmæti eða afsaka þær jafngildir svikum við meginviðmið vinstri stjórnmála.

Við viljum leggja áherslu á að það er engin mótsögn á milli einarðrar andstöðu við undirokun og hernám Ísraels gegn Palestínumönnum og afdráttarlausrar fordæmingar á hrottafengnum ofbeldisverknaði gegn saklausum borgurum. Í reynd verður hver sjálfum sér samkvæmur vinstrimaður að halda hvorri tveggja afstöðunni til streitu samtímis.

Sjöundi október er myrkur dagur í sögu Ísrael-Palestínu og í lífum þjóðanna á þessu svæði. Þau sem neita að fordæma aðgerðir Hamas vinna gríðarlegt tjón gegn horfum á því að friður verði lífvænlegur, raunhæfur pólitískur valkostur. Þau veikja getu vinstrisins til að bera fram jákvæða félagslega og pólitíska sýn og breyta því í öfgakennt, þröngt og útilokandi stjórnmálaafl.

Við skorum á jafnoka okkar innan vinstrisins að snúa aftur til stjórnmála sem byggja á almennum grundvallaratriðum mannhyggju, taka skýra afstöðu gegn mannréttindabrotum af öllu tagi og styðja okkur í baráttunni við að rjúfa vítahring ofbeldis og eyðileggingar.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí