Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra stefnir að því að hækka fasteignagjöld á íbúðir sem ekki eru nýttar til búsetu. Þetta kemur fram í þingsályktunartillögu sem hann hefur lagt fram um húsnæðisstefnu fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028.
Þingsályktunartillagan er löng en ekki er hægt að segja annað en drjúgur meirihlutinn hennar fari í óljós markmið og vonir um framtíðina. Svo sem að „auka aðgengi að fjölbreyttum búsetukostum fyrir eldra fólk“, svo dæmi sé tekið. Þær aðgerðir sem eru boðaðar eru svo annað hvort óljósar eða fremur ólíklegar til að leysa húsnæðiskreppuna.
En nokkur vilji virðist vera að draga úr Airbnb-íbúðum í Reykjavík. Auk fyrrnefndrar hækkunar fasteignagjalda þá er stefnt að því að leggja fram frumvarp til laga á Alþingi „þar sem sett verði skýrara regluverk um gististarfsemi í fjöleignarhúsum með tilliti til þess að hvaða marki aðrir eigendur þurfi að veita samþykki fyrir slíkri starfsemi“.
En ekkert kemur fram um hve mikið fasteignagjöldin eiga að hækka. Ekki er heldur búið að ákveða nákvæmlega hvaða íbúðir muni flokkast svo. Ætla má að þetta sé til þess að draga úr íbúðum sem eru eingöngu leigðar út á Airbnb, enda markmiðið sagt: „að stuðlað verði að því að íbúðir í þéttbýli sem ekki eru nýttar til búsetu verði nýttar sem slíkar.“
En þó eru ákveðnir varnaglar á þessum fremur hófsömu áformum. Í þingsályktunartillögunni segir: „Mat verði lagt á fjölda íbúða sem nýttar eru til annars en búsetu, svo sem orlofsíbúðir og íbúðir sem nýttar eru undir gististarfsemi og annað heimili, og metin áhrif breyttrar álagningar fasteignagjalda á slíkar íbúðir.“