Stjórnendur átján stofnana og mannúðarsamtaka á vegum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu á sunnudag þar sem þau kölluðu eftir „tafarlausu vopnahléi í mannúðarskyni“ í Ísrael og Palestínu.
Í yfirlýsingunni er árás Hamas-liða þann 7. október síðastliðinn sögð „hryllileg“ um leið og dráp óbreyttra borgara á Gasa voru kölluð „svívirða“. Í yfirlýsingunni voru nýjustu tölur um mannfall tilgreindar: árás Hamas þann 7. október var yfir 1.400 manns að bana, en síðan þá hafa árásir Ísraels dregið 9.700 manns á Gasa til dauða, þar af yfir 3.900 börn og yfir 2.400 konur.
„Þessu verður að linna núna“
Í tilkynningunni ítreka stofnanirnar áskorun til aðila átakanna um að virða skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðalögum um mannúð og mannréttindi, áskorun um að allir gíslar verði látnir lausir, að óbreyttir borgarar og borgaralegir innviðir, að meðtöldum sjúkrahúsum, neyðarskýlum og skólum, njóti verndar, og að meiri mannúðargögn berist hratt og örugglega til Gasa: „matur, vatn, lyf og vitaskuld eldsneyti.“
Yfir hundrað árásir hafa verið tilkynntar á heilbrigðisstarfsfólk og -stofnanir, segir í yfirlýsingunni, fjöldi mannúðarstarfsfólks hefur beðið bana, þar á meðal 88 starfsmenn UNRWA, hjálparstofnunar SÞ fyrir palestínska flóttamenn. Það er, segir í tilkynningunni, mesta mannfall meðal starfsfólks SÞ sem nokkurn tíma hefur verið skrásett í einum átökum.
Yfirlýsingunni lýkur á orðunum: „30 dagar eru liðnir. Nú er nóg komið. Þessu verður að linna núna.“ Hún er undirrituð af stjórnendum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, UNICEF, CARE International, Save the Children, Matvælaáætlun SÞ, UN Women, og Samræmingarmiðstöð mannúðarmála (OCHA), meðal annarra.