Ásakanir um gyðingahatur skekja listheiminn – nefndarmaður Documenta segir af sér

Ranjit Hoskote, rithöfundur og sýningarstjóri frá Mumbai, Indlandi, tilkynnti síðastliðinn sunnudag um afsögn sína úr þeirri sex manna nefnd, the Finding Committee, sem leggur grunninn að sýningarstjórn Documenta listviðburðarins sem næst verður haldinn árið 2027.

Afsögn Hoskotes berst í kjölfarið á grein sem birtist í þýska dagblaðinu Süddeutsche Zeitung nokkrum dögum fyrr, þann 9. nóvember. Þar var Hoskote sakaður um samúð með BDS-hreyfingunni, sem hvetur til sniðgöngu ísraelskra fyrirtækja, og um leið um gyðingahatur, í ljósi þess að árið 2019 skrifaði hann undir yfirlýsingu gegn viðburði á vegum sendiráðs Ísraels í Mumbai. Claudia Roth, menningarmálaráðherra Þýskalands úr röðum Græningja, fordæmdi yfirlýsinguna fyrir „greinilegt gyðingahatur“, í ljósi þess að þar var zionisma lýst sem „rasískri hugmyndafræði“ og Ísrael sem „ríki landnáms, nýlendna og aðskilnaðarstefnu.“

Ráðherrann hótaði að afturkalla opinberar fjárveitingar til listviðburðarins vegna þessa. Stjórnvöld kröfðu aðstandendur Documenta um að tryggja að meðlimir Finding nefndarinnar hefðu enga samúð með BDS-hreyfingunni.

„Eitrað andrúmsloft“

Documenta er einn stærsti viðburður í myndlist á heimsvísu, haldinn í 100 daga á fimm ára fresti í Kassel, Þýskalandi. Vettvangurinn var stofnaður árið 1955 og var ætlað að endurheimta stöðu samtímalistar í Vestur-Þýskalandi, og Vestur-Þýskalands innan listheimsins, eftir kúgun og ritskoðun á valdatíma nasista. Meðal listamanna sem tóku þátt í fyrstu sýningum Documenta voru Picasso og Kandinsky.

Í þeirri yfirlýsingu sem Hoskote lét fylgja afsögn sinni segir hann að undanliðnir dagar hafi verið á meðal þeirra erfiðustu í lífi hans. „Hinni hrikalega ásökun um gyðingahatur hefur verið stefnt gegn nafni mínu í Þýskalandi, landi sem ég hef litið til með ást og aðdáun, og þar sem ég hef lagt mitt af mörkum til menningarstofnana og vitsmunalífs í nokkra áratugi, sem rithöfundur, sýningarstjóri og kenningasmiður. Þýskir álitsgjafar sem hafa enga innsýn í líf mitt og störf hafa dæmt, fordæmt og brennimerkt mig á grundvelli einnar undirskriftar við yfirlýsingu, sem var tekin úr samhengi og ekki skoðuð af skynsemi.“

Þá segir Hoskote að sér sé ljóst að ekkert pláss sé „í þessu eitraða andrúmslofti“ fyrir fínlega umræðu um það sem er í húfi. Nú hafi hann verið beðinn um að fallast á „víðtæka og ótæka skilgreiningu á gyðingahatri sem leggur Gyðinga að jöfnu við Ísraelsríki og, í samræmi við það, mistúlkar alla tjáningu á samúð með íbúum Palestínu sem stuðning við Hamas.“ Hann skrifar að samviska hans leyfi honum ekki að fallast á þessa víðtæku skilgreiningu og þessi „höft á mannlega samkennd.“

Mótfallinn sniðgöngu

Í afsagnarbréfinu segist hann um leið vilja halda því til haga að hann hafi mikið álit á Gyðingum, finni til djúprar samkenndar með sögu þjáninga þeirra og aðdáunar á stórkostlegum menningarafrekum þeirra, eins og megi vera ljóst af ritgerðum hans, fyrirlestrum og bókum. Þá segist hann einnig vilja gera ljóst að hann hafi opinberlega staðið gegn sniðgöngu Ísraels á sviði menningarstarfs og fræða, enda telji hann að slík sniðganga myndi grafa undan og einangra frjálslyndar og gagnrýnar raddir innan Ísraels. „Ég tek ekki undir afstöðu BDS og er ósammála henni,“ skrifar hann. „Samúð mín er með Gyðingum og Palestínufólki, sem hafa þjáðst í linnulausri baráttu í Vestur-Asíu í sjö áratugi.“

Að því sögðu víkur Hoskote að yfirlýsingunni sem hann skrifaði undir árið 2019: mótmæli við málþingi sem sendiráð Ísraels í Mumbai hélt um „Hugmyndir leiðtoga um þjóðir: zíonismi og hindutva.“ Hindutva er indversk stjórnmálahreyfing og hugmyndafræði, sem mótaðist undir áhrifum fasískra hreyfinga í Evrópu á fyrri hluta 20. aldar, og vefur saman þræði hindu-trúarbragða og indverskrar þjóðernishyggju. Á boðsbréfi fyrir viðburðinn, útskýrir Hoskote, var mynd af Theoder Herzl, upphafsmanni zionisma, stillt upp við hlíð myndar af V. D. Savarkar, einum upphafsmanna hindutva.

Hoskote segist hafa undirritað mótmælaskrána þar sem það hafi verið augljós ásetningur aðstandenda viðburðarins að finna samsvörun á milli Herzl og Savarkar, og kalla þannig eftir virðingu fyrir bandalagi milli zionisma og öfgafullrar indverskrar þjóðernishyggju. „Mér þótti þetta sérdeilis kaldhæðnislegt þar sem Svarkar var þekktur aðdáandi Hitlers og tjáði opinberlega aðdáun sína á hugmyndafræði og aðferðum nasista, sem hann lagði til sem viðmið sem Indland, að meirihluta byggt hindúum, skyldi fylgja, sérstaklega um hvernig koma bæri fram við trúarlega minnihlutahópa.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí