„Það er náttúrulega viss bömmer þegar veruleikinn er ekki að passa í ramma vísindanna. Við því á auðvitað að bregðast með því að reyna að troða veruleikanum inn í vísindarammann, eins og í ævintýrinu þar sem skorið var af tám og hælum ljótu og leiðinlegu systranna svo lappirnar pössuðu í glerskóinn. Seðlabankinn er fastur í þessum kafla Öskubusku. Bókin verður aldrei kláruð. Enda ævintýri.“
Þetta segir Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, kerskinn á Facebook og vísar í orð Ásgeirs Jónssonar Seðlabankastjóra. Ásgeir viðurkenndi í vikunni á fundi Seðlabankans að hann væri í svolítið sérstakri stöðu því skólaganga hans hefði ekki undirbúið hann fyrir hinn íslenska fasteignamarkað. Nánar tiltekið sagði hann að fasteignamarkaðurinn væri ólíkur öllum mörkuðum sem hann hefði lært um. Þrátt fyrir að „gríðarlegt framboð sé á eignum til sölu og sölutími hafi lengst“ þá hækkar samt verðið. Morgunblaðið hafði eftir honum að þetta væri ekki hagfræði sem kennd sé við hagfræðideildir.