ASÍ segir breytingar á leikskólum koma niður á láglaunafólki

Börn 17. nóv 2023

Miðstjórn ASÍ lýsir yfir áhyggjum sínum af nýlegri þróun í dagvistunarmálum sveitarfélaganna, nú síðast á Akureyri, og varar við ófyrirséðum afleiðingum hennar.

Undanfarna mánuði hefur borið á tillögum sem ætlað er að leysa mannekluvanda á leikskólum og auka velferð barna með meiri samveru með foreldrum. Tillögurnar spretta ekki upp úr tómarúmi heldur hefur vanfjármögnun og skammsýni einkennt málaflokkinn um árabil sem bitnað hefur á kjörum og aðbúnaði starfsfólks leikskólanna. Miðstjórn ASÍ leggur áherslu á að það er á ábyrgð sveitafélaganna og stjórnvalda að tryggja fjármögnun leikskólakerfisins og viðunandi aðbúnað starfsfólks.

Bæði Kópavogsbær og Akureyrarbær hafa samþykkt nýjar gjaldskrár sem fela í sér gjaldfrjálsa sex klukkustunda leikskólavist barns. Á móti hækkar gjald þeirra foreldra sem þurfa á lengri vist barna að halda. Samhliða gjaldskrárbreytingum hefur þjónusta verið skert með fjölgun svokallaðra skráningadaga.

Breytingarnar endurspegla með engu móti stöðu foreldra á vinnumarkaði, en yfir 90% barna eru á leikskóla meira en sex klukkustundir á dag. Meðan hátekjufólk með sveigjanlegan vinnutíma og sterkt bakland getur nýtt sér gjaldfrjálsan leikskóla kemur breytingin niður á láglaunafólki, innflytjendum og einstæðum foreldrum í formi hærri gjalda og skertrar þjónustu.

Breytingar munu hafa neikvæð áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði. Þriðjungur kvenna er nú þegar í hlutastörfum og rannsóknir sína að umönnunarábyrgð er helsta ástæða þess að konur eru í skertu starfshlutfalli. Með aðgerðunum varpa sveitarfélögin mannekluvanda leikskólanna yfir á foreldra og þá einkum mæður í stað þess að taka á mannekluvandanum innan sinna raða. Þannig vinnur breytingin gegn jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

Miðstjórn ASÍ bendir á mótsögnina í hugtakinu „gjaldfrjáls leikskóli“ sem aðeins gagnast litlum hluta foreldra sem sterkt standa fjárhagslega, á kostnað láglaunafólks og því hætta á að aðgerðirnar auki stéttskiptingu. Miðstjórn varar jafnframt við því að með breytingunum er áfram grafið undan velferðarstoðum samfélagsins og forsendum mikillar atvinnuþátttöku á Íslandi.

Frétt af vef Alþýðusambandsins.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí