Atli Harðarson hvetur til breiðari háskólamenntunar

Háskóli Íslands hefur allt sem þarf til að bjóða upp á gott nám í frjálsum listum, sambærilegt við það sem stundað er við virta „liberal arts colleges“ í Bandaríkjunum. Þetta skrifar Atli Harðarson, heimspekingur og prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, í grein sem Vísir birti í dag, fimmtudag, þar sem Atli hvetur til slíks námsframboðs. Fyrir því nefnir hann ýmis rök, síðast en ekki síst „að stjórnmálin og samfélagsumræðan þurfa á fólki að halda sem býr í senn yfir víðsýni og þekkingu á mörgum sviðum.“

170 ára gömul hugmynd um sérhæfingu

Í greininni rekur Atli hvaðan sú hugmynd er komin, sem liggur háskólastarf á Íslandi að miklu leyti til grundvallar, að háskólanám skuli einkum snúast um sérhæfingu. Hann greinir frá því að á miðri 19. öld hafi menningarmálaráðherra Danmerkur, Johan Nicolai Madvig, lagt grunninn að skipulagi stúdentsprófs og háskólanáms: „Meginhugmynd Madvigs var að almennri menntun háskólaborgara lyki með stúdentsprófum frá lærðu skólunum en háskóli snerist um sérhæfingu.“ Sú stefnumörkun hafi þarmeð einnig gilt á íslandi.

Atli segir að þetta hafi rifjast upp fyrir honum þegar hann heimsótti nýverið háskóla í New York fylki Bandaríkjanna, „það sem þarlendir kalla „liberal arts college“.“ Þeir skipti hundruðum í Bandaríkjunum og njóti virðingar:

„Við flesta þeirra hafa nemendur töluvert val um hvernig þeir setja nám sitt saman. Sá sem velur til dæmis líffræði sem aðalgrein getur varið drjúgum hluta námstímans í tungumál, sagnfræði, tölvufræði, heimspeki eða annað sem skólinn býður upp á. Nám í frjálsum listum á að stuðla að víðsýni, almennri þekkingu og getu til skynsamlegrar rökræðu fremur en að gera nemendur að sérfræðingum í einni grein eða búa þá undir eitt starf.“

Til að átta sig á tilverunni

Atli greinir frá því hvernig hugmyndin um nám í frjálsum listum á rætur að rekja til Grikklands til forna og Rómaveldis. Hann segir að ákvörðunin sem tekin var í Danmörku um sérhæfingu háskólanáms eigi sér ekki samsvörun í bandarískri skólasögu. „Fyrir vikið er fjöldi bandarískra háskólaborgara með almenna menntun í frjálsum listum fremur en sérmenntun í einni grein.“

Allnokkrir háskólar í Evrópu hafa að sögn Atla sótt fyrirmyndir til Bandaríkjanna og tekið að bjóða bakkalárnám í frjálsum listum, á síðustu árum. Það svari kalli tímans „enda þarf sífellt meiri lærdóm til að átta sig á tilverunni og geta lagt gott til í rökræðum um heill okkar og farsæld.“ Ef til vill, skrifar hann, „er kominn tími til að endurskoða þá stefnu sem mörkuð var í ráðherratíð Madvigs fyrir rúmlega eitt hundrað og sjötíu árum.“

Á vef Vísis má lesa grein Atla í heild.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí