Bryndís Haraldsdóttir vill ekki gjaldfrjálsar skólamáltíðir

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist algjörlega ósammála þingsályktunartillögu sem rædd var á Alþingi í liðinni viku, um gjaldfrjálsar skólamáltíðir.

Futningsmaður tillögunnar er Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG. Ályktunin sem þar er lögð fram er aðeins ein setning, svofelld: „Alþingi ályktar að fela mennta- og barnamálaráðherra að vinna heildstæða stefnu um daglegar, gjaldfrjálsar, næringarríkar skólamáltíðir og umgjörð þeirra.“ Í greinargerð með tillögunni er rætt um heilbrigðisvanda barna og hvernig góð næring er forsenda góðrar frammistöðu í námi.

Lög um ókeypis skólamáltíðir í Finnlandi í 70 ár

Þá er vísað til fordæma á Norðurlöndunum. Þar er Finnland efst á blaði, en fram kemur að þar hafi verið boðið upp á ókeypis máltíðir fyrir öll börn í yfir 70 ár, eða frá gildistöku laga um efnið árið 1948. Frá árinu 2004 hafi skólamáltíðir verið hluti af aðalnámskrá og almennu námi barna, þar sem þau læri meðal annars um næringu og heilsu, matarmenningu, borðsiði og umhverfisáhrif matvæla. „Finnar líta svo á,“ segir þar, „að skólamáltíðir styðji einnig við jafnrétti foreldra þar sem þær auðvelda foreldrum að vinna utan heimilis. Það styðji við jafnrétti kynjanna, atvinnuþátttöku kvenna og þar með hagvöxt.“

Þeir þingmenn sem tóku til máls um tillöguna voru almennt jákvæðir í garð hennar – með einni undantekningu. Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist, eins og kemur fram að ofan, „algjörlega ósammála“ henni. Hún sagði að í fyrsta lagi ætti málið heldur heima meðal sveitarfélaganna, sem reka grunnskóla og leikskóla landsins, en á vettvangi ríkisins.

„Frumhlutverk foreldra“

„En mér finnst það líka frumhlutverk foreldra að fæða og klæða börnin sín,“ sagði Bryndís næst. „Ég held að ríkið eigi ekki að stíga inn á það skref, nema í þeim tilfellum þar sem foreldrar eiga erfitt með að fæða og klæða börnin sín. Þá eigum við að vera með öryggisnet.“ Hún sagði að bótakerfi, barnabætur, húsnæðisbætur „og slíkt“ dugi til þess. Þá hafi sveitarfélög víða greitt fæðisgjald til skóla, fyrir hönd barna, þegar foreldrar hafi ekki greitt það. Bryndís sagði að innan sveitarfélaganna sé fólk fljótt að bera kennsl á það ef eitthvað bjátar á.

„Það er töluvert mikil niðurgreiðsla með skólamat í dag,“ bætti hún við, máltíðin kostaði á bilinu 600 til 800 krónur. „Þú færð ekkert mikið mjög góðan mat fyrir þessar upphæðir, þó það sé úti í Bónus, samlokur eða rúnstykki eða hvað það er, það kostar örugglega meira en þetta.“

Bryndís ítrekaði hversu mikilvægt henni þætti að foreldrar greiði fyrir máltíðirnar: „Ég held að það sé mjög mikilvægt að foreldrar séu að borga fyrir þessa þjónustu því með því gera þeir meiri kröfur.“ Hún sagði samfélagið hafa of litlar skoðanir á því sem gerist í grunnskólunum. En það sé einkennandi fyrir starf í foreldrafélögum að foreldrar hafi skoðanir á mötuneytinu.

Aðrir þingmenn sem tóku til máls voru ýmist mjög eða nokkuð hlynntir tillögunni. Hún telst þó til þeirra þingmannamála sem þingmenn hafa nýverið kvartað yfir að fáist aldrei samþykktar og leiði því hvorki lönd né strönd heldur dagi uppi í nefndum. Eftir umræðu í þinginu var tillagan send áfram til velferðarnefndar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí