„Ef ekki mútukerfi, þá hvað?“ – Fálæti stjórnvalda yfir endurteknum húsbrunum vekur furðu

„Þetta er enn ein mannfórnin sem færð er vegna þess að erlendu vinnuafli er gert að búa í breyttu, óíbúðarhæfu (iðnaðar)húsnæði sem uppfyllir ekki viðmið um brunavarnir og oft ekki heldur heilbrigðis reglugerðir.“

Ofangreind orð lét Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, prófessor við Háskólann á Bifröst, frá sér á Facebook á miðvikudag, í tilefni fréttarinnar sem þá barst um andlát manns af völdum eldsvoðans í Árbæ undanliðna helgi.

Ólína bendir á að ábyrgð á eftirliti með brunavörnum liggi hjá byggingarfulltrúum sveitarfélaga og slökkviliði og vísar til viðeigandi lagagreinar, 12. greinar laga um brunavarnir. Hún spyr: „Af hverju er þessum skyldum ekki sinnt betur en raun ber vitni? Bruninn í Stangarhyl er ekki fyrsti harmleikurinn sem verður vegna eldsvoða í íbúðarhúsnæði þar sem brunavarnir hafa verið vanræktar.“

Ráðherra stofnaði hóp fyrir þremur árum …

Í kvöldfréttum RÚV á miðvikudagskvöld var rætt við Sigurð Inga Jóhannsson, innviðaráðherra, sem er ábyrgur fyrir málaflokknum. Í ljósi þess að bruninn við Stangarhyl í Árbæ var fjórði eldsvoðinn á þessu ári, í iðnaðarhúsnæði sem nýtt er undir íbúðir spurði Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður, ráðherrann: „Er ekki brýnna aðgerða þörf núna?“ Sigurður Ingi hóf svar sitt á segja: „Jú, það hefur verið það. Frá því að þessir atburðir gerðust á Bræðraborgarstíg á sínum tíma. Þá setti þáverandi félags- og barnamálaráðherra á laggirnar hóp sem skilaði þrettán tillögum til stjórnkerfisins. Við höfum verið að vinna úr þeim alla tíð síðan.“

Eldsvoðinn við Bræðraborgarstíg sem ráðherra vísar til í svarinu varð sumarið 2020, eða fyrir nær þremur og hálfu ári síðan. Sigurður Ingi sagði að unnið væri úr nokkrum af þessum tillögum í frumvarpi sem hann hefði mælt fyrir á þingi þennan sama dag, miðvikudag. Þar vísar hann til frumvarps um „breytingar á lögum um lögheimili og aðsetur, lögum um mannvirki og lögum um brunavarnir“.

Leysa vandann með afnámi einkalífs

Samkvæmt frumvarpinu yrði fólki annars vegar heimilt að skrá aðsetur sitt í atvinnuhúsnæði; hins vegar yrði slökkviliðsstjóra og eftirlitsmönnum hans leyft, „hvenær sem er og án sérstakrar heimildar“ að krefjast þess „að fá aðgang að húsnæði og öllum þeim stöðum til skoðunar og eftirlits, þar á meðal til myndatöku, þar sem skoðunar eða eftirlits er þörf samkvæmt lögum þessum.“

Í greinargerð með frumvarpinu er minnst á „friðhelgi einkalífs“ í þessu samhengi, en ekki til að tryggja það heldur til að efast um að hugtakið eigi yfirleitt við um fólk sem býr í atvinnuhúsnæði. Þar segir, nánar til tekið: „Við þær aðstæður þarf að skoða hvort hægt sé að gera sömu ströngu kröfur um friðhelgi einkalífs þeirra sem taka sér búsetu í húsnæði þar sem ekki er heimilt að hafa fasta búsetu samkvæmt gildandi löggjöf.“ Ekki er vikið að þeirri spurningu aftur í greinargerðinni.

Hálftíma umræða á Alþingi

Þannig virðist vera, eftir þriggja ára ígrundun, að helsta viðbragð stjórnvalda við því að láglaunahópum á landinu, erlendu verkafólki, stafi lífshætta af húsnæðinu sem því er gert að búa í, sé að ganga á friðhelgi einkalífs sama fólks, með því að heimila eftirlitsaðilum að ryðjast inn á heimili þeirra „hvenær sem er og án sérstakrar heimildar“.

Fyrsta umræða um frumvarpið fór fram á Alþingi í gær, miðvikudag, og stóð í um hálfa klukkustund, að lokinni framsögu. Ekki er hægt að segja að þingmenn hafi almennt sýnt málinu mikinn áhuga. Til samanburðar ræddi þingið um sígarettur með mentol-bragði á sama þingfundi og þó að þá væri langt liðið á kvöld stóð sú umræða nær tvöfalt lengur. Umræðunni um lögheimilin og brunavarnirnar lauk með atkvæðagreiðslu og gekk frumvarpið áfram til umhverfis- og samgöngunefndar.

Aðrar hugmyndir um aðgerðir

Ráðherrann talaði með þeirri hægð sem honum er tamt. Á samfélagsmiðlum birtist annað viðbragð, krafa um annars konar aðgerðir með meiri hraði.

Meðal þeirra sem skrifa athugasemdir við fyrrnefnda færslu Ólínu Þorvarðardóttur er Svala Jónsdóttir, kennari, sem bendir á hið víðara samhengi vandans og segir:

„Ríkið þarf líka að stíga inn á húsnæðismarkað með afgerandi hætti, t.d. með nýjum verkamannabústöðum og leiguhúsnæði fyrir nýkomið fólk. Það hefði átt að gera það fyrir mörgum árum, en það er ennþá hægt. Hlutdeildarlánin og leiguíbúðir stéttarfélaga ná ekki til þessa hóps.“

Bára Grímsdóttir, tónlistarkennari, vekur máls á því hvernig þrengingar á leigumarkaði stafi meðal annars af hömlulausum ferðaiðnaði og skammtímaleigu íbúða, sem hreki fólk í óboðlegt og hættulegt húsnæði: „Það þarf líka að banna skammtímaleigur fyrir ferðamenn, allavega fækka þeim all mikið, meðan ástandið á húsnæðismálunum er svona,“ skrifar hún.

„Víðast hvar sætu þessir menn inni“

Jóhannes Hraunfjörð Karlsson, hagfræðingur og sagnfræðingur, spyr: „Af hverju eru leigusalar ekki kærðir fyrir manndráp? Víðast hvar sætu þessir menn inni, sem segir sína sögu.“ Ólína spyr hann á móti hvort húseigandinn á Bræðraborgarstíg hafi einhvern tíma verið sóttur til saka. „Eða embættin sem áttu með eftirliti að tryggja öryggi íbúanna? Ég hef engar fréttir séð af því? Hvar eru fjölmiðlar?“ Jóhannes svarar: „Bræðraborgarstígsmálið hefði víðast hvar fallið undir fjöldamorð og sorglegt að það skuli ekki hafa nægt, svo ekki sé nú meira sagt.“

Ólafur Haukur Símonarson, rithöfundur, leiðir að því líkur að ráðamönnum hljóti að vera mútað til að halda jafn stíft að sér höndum á þessu sviði og þeir gera: „Það virðist enginn vilji hjá opinberum aðilum til þess að taka í lurginn á þessu skítapakki sem græðir feitt á því að leigja farandverkafólki og fátæku fólki allskonar skrípahúsnæði í rakakjöllurum eða jafnvel gluggalausum skonsum. Þarna hlýtur að vera um að ræða einhverskonar mútukerfi – greiðsla fyrir að sinna ekki eftirlitsskyldu. Ef ekki, þá hvað?“

Hver þarf yfirvöld?

Í fyrrnefndu viðtali við innviðaráðherra kom fram að nú sé talið að á höfuðborgarsvæðinu búi um 2.000 manns í húsnæði sambærilegu við það sem brann um helgina, en um 3.000 á landinu öllu.

Viðtalinu lauk ráðherrann á að nefna að eigendum alls þessa húsnæðis væri frjálst að gera úrbætur á því eins þó að þeir væru ekki krafðir um það. Hann sagði: „Þeir sem eiga þetta húsnæði, þeir þurfa ekki að bíða eftir niðurstöðu löggjafarþingsins eða framkvæmdavaldsins. Þeir geta auðvitað gengið strax í það að lagfæra sitt húsnæði.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí