Eftir brottvísun er Badran-fjölskyldan heimilislaus í Barcelona

Hin palestínska Jawaher Badran og börn hennar eru nú á götunni í spænsku borginni Barcelona, eftir brottvísun frá Íslandi.

Aðfaranótt fimmtudags framkvæmdi stoðdeild Ríkislögreglustjóra brottvísun, eins og það heitir á fagmáli, og sætir ekki tíðindum innan stjórnsýslunnar, enda daglegt brauð. Í þetta sinn voru skjólstæðingar lögreglunnar sjö palestínsk börn og móðir þeirra, sem sóttu um alþjóðlega vernd á Íslandi fyrir tiu mánuðum síðan.

Í meðferð umsóknarinnar neituðu stjórnvöld að tryggja réttargæslu fjölskyldunnar þrátt fyrir að Þroskahjálp teldi veikindi meðal barnanna tilefni til að þrýsta ítrekað á um að því verklagi yrði fylgt, að því er fram kemur í máli fulltrúa samtakanna. Samtökin leituðu ekki aðeins til Útlendingastofnunar og Kærunefndar útlendingamála heldur hafa þriggja ráðherra að auki, sem allir hunsuðu erindi þeirra vegna málsins.

Á götunni fyrir framan flugstöð

Á meðan á brottvísuninni stóð náðist ekki samband við móður barnanna, Jawaher Badran, enda fylgdi lögreglan því verklagi að taka af henni símann þar til fjölskyldan hefði verið flutt á leiðarenda. Þá fyrst, nú á fimmtudag, fengu aðrir staðfestingu þess hvert fjölskyldunni hefði brottvísað: áfangastaðurinn var Spánn, nánar til tekið Barcelona.

Þrjú barna Jawahers fylgjast með samskiptum lögreglumanna eftir lendingu í Barcelona, 2. nóvember 2023.

Þegar fyrst lá fyrir að íslensk stjórnvöld hefðu hug á að brottvísa fjölskyldunni til Spánar kom fram í máli móðurinnar, Jawaher, að þar eiga þau engin tengsl og enga bakhjarla. Rökvísin að baki áfangastaðnum liggur í beitingu íslenskra stjórnvalda á Dyflinnarreglugerðinni, reglugerð sem heimilar stjórnvöldum að vísa umsækjendum um vernd til fyrsta viðkomustaðar þeirra innan Schengen-svæðisins. Ísland er á meðal þeirra ríkja sem árum saman hafa gjörnýtt þá heimild, jafnvel látið í veðri vaka að hún feli í sér skyldu, og brottvísað umsækjendum þegar það býðst.

Samtökin Réttur barna á flótta létu vita af því undir kvöld á fimmtudag að ljóst væri orðið hvað tæki við fjölskyldunni í Barcelona: ekkert. Nánar til tekið heimilisleysi. „Þau eru núna á götunni í Barcelona, án peninga fyrir húsnæði, mat eða strætó,“ tilkynntu samtökin á Facebook. Í annarri færslu samtakanna er tilgreint hversu bókstaflega þau eru á götunni: „Fjölskyldan er á götunni (fyrir framan flugstöð) og fékk enga aðstoð frá spænskum yfirvöldum og engan pening.“

Lögreglan svarar ekki eftir kl 15

Á skrifstofu Ríkislögreglustjóra er ekki svarað í síma eftir klukkan þrjú síðdegis. Blaðamanni tókst því ekki að sinni að afla svara hjá embættinu, eftir að þessar fréttir bárust, um hvernig staðið var að brottvísun fjölskyldunnar og hvernig embættið tryggði að spænsk yfirvöld gengjust við þeirri ábyrgð á velferð fjölskyldunnar sem brottvísanir í krafti Dyflinnar-reglugerðarinnar gera ráð fyrir.

Í tilkynningu sinni sögðu samtökin Réttur barna á flótta: „Við hefjum söfnun til að hjálpa þeim að komast í skjól strax. Og við krefjumst þess að ríkistjórnin taki ábyrgð og komi fjölskyldunni aftur til Íslands sem fyrst!“ Samtökin birtu um leið kennitölu og reikningsnúmer fyrir þau sem vilja styrkja fjölskylduna.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí