Það telst ef til vill ekki til stórtíðinda en virðist þó vert að geta, að fórnarlömb árásar Hamas á Ísrael þann 7. október síðastliðinn eru nú talin færri en þegar mat fjöldans reis hæst. Um nokkurra vikna skeið studdust allir helstu fjölmiðlar við það mat ísraelskra yfirvalda að 1.400 manns hefðu látið lífið í árásinni. Síðastliðinn föstudag lækkuðu ísraelsk stjórnvöld þessa tölu og segja nú árásina eða árásirnar hafa orðið 1.200 manns að bana.
Frá þessu var meðal annars greint í fréttamiðlinum Times of Israel þann 11. nóvember. Þar er haft eftir Lior Haiat, talsmanni utanríkisráðuneytisins, að enn sé unnið að því að bera kennsl á þau látnu. Haiat gaf aftur á móti ekki upp ástæðu þess að áætlaður fjöldi þeirra hefði lækkað.
Í umfjöllun miðilsins kemur fram að búast megi við að þessi áætlaði fjöldi haldi áfram að sveiflast um hríð. Þar er nefnt að talið sé að einhver þeirra 240 sem tekin voru í gíslingu séu talin af, en ekki sé ljóst hve mörg það eru.
318 ísraelskri hermenn eru nú sagðir vera á meðal hinna látnu í árásinni sjálfri, auk þess sem 37 þeim til viðbótar hafa látið lífið í átökum á Gasa í kjölfarið. Lögregluyfirvöld segjast hafa borið kennsl á 845 óbreytta borgara í hópi þeirra sem Hamas-liðar drápu í árásinni þann 7. október.
Yfir 11.000 íbúar Gasa hafa látið lífið í árásum Ísraelshers á svæðið í kjölfarið, samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum Gasa. Það er um 1 af hverjum 200 íbúum svæðisins.