Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknarflokks, mælti á miðvikudag fyrir tillögu til þingsályktunar um innleiðingu lýðheilsumats í íslenska löggjöf. Verði tillagan samþykkt felur Alþingi heilbrigðisráðherra þarmeð „að ljúka vinnu við að festa í sessi lýðheilsumat hér á landi,“ og skipa sérfræðihóp „með þátttöku fagráðuneyta, fræðasamfélags, sveitarfélaga og embættis landlæknis er leggi til leiðir sem tryggja rýni allra stjórnarfrumvarpa sem lögð eru fyrir Alþingi út frá áhrifum þeirra á heilsu þjóðarinnar.“
Ellefu þingmenn eru skrifaðir sem flutningsmenn tillögunnar: Framsóknarflokki, flokki Pírata, Sjálfstæðisflokki, Flokki fólksins, Miðflokknum og Viðreisn, þ.e. öllum þingflokkum nema VG og Samfylkingu.
Til að tryggja bestu upplýsingar
Í greinargerð með tillögunni er vísað til rannsókna sem flutningsmenn segja að sýni „að áhrif löggjafar á heilsu vega hve þyngst.“ Í ljósi þess segja þau skipta sköpum „að tryggja kjörnum fulltrúum og almenningi bestu mögulegu upplýsingar um áhrif laga og reglugerða sem kunna að hafa áhrif á heilsu og heilsutengd lífsgæði.“
Þá er í greinargerðinni vísað til annarra fordæma um mat á löggjöf: annars vegar að ríkisstjórnin hafi tekið þá ákvörðun „að öll stjórnarfrumvörp skuli meta út frá áhrifum þeirra á jafnrétti kynjanna,“ hins vegar snúi viðamikill lagarammi að umhverfismati og „ljóst að löggjafinn telur mikilvægt að tryggja skýrt ferli varðandi þá greiningu, m.a. með þar til bærri stofnun, Umhverfisstofnun.“ Flutningsmenn tillögunnar segjast ekki mun leggja til „hvernig ákjósanlegast sé að tryggja lýðheilsumat stjórnvalda en nærtækast er að horfa til löggjafar og framkvæmdar í Finnlandi þar sem lagafrumvörp eru sérstaklega metin út frá áhrifum þeirra á lýðheilsu.“
Tillagan var áður flutt á síðasta þingi og var endurflutt nær óbreytt í þetta sinn.