„Vil ekki vera neikvæður og gagnrýninn á það sem verið er að gera í þessum aðstæðum, aðstæðum sem geta svo hæglega orðið miklu hættulegri með mjög skömmum fyrirvara. En samt. Að mínu mati er þessi 5 mínútna regla virkilega vond regla.“
Þetta skrifar Björn Birgisson, samfélagsrýnir og Grindvíkingur, á Facebook. Sífellt fleiri Grindvíkingar lýsa nú yfir óánægju með hvernig staðið hefur verið að rýmingunni í bænum. Samstöðin greindi fyrr í dag frá því að mörgum blöskraði hvernig fyrirtæki hefðu nær ótakmarkaðan tíma meðan íbúar hefðu einungis fyrrnefndar 5 mínútur.
„Fólk kemur jafnvel langt að, bíður klukkustundum saman í bílaröð, kemst svo eftir dúk og disk að heimili sínu – nánast til að geta ekki gert neitt! 15 mínútur væru miklu nær lagi. Höfum í huga að svona heimsókn í eigin híbýli – hugsanlega í síðasta sinn – fylgir mikið álag við þessar aðstæður og þá líða 5 mínútur á leifturhraða og hugurinn leitar út og suður í troðfullum minningabankanum,“ segir Björn og bætir við:
„Er afar þakklátur fyrir allt það starf sem unnið er við hættulegar aðstæður í Grindavík og lít á það fólk sem vinnur við þessar aðstæður sem fórnfúsar hetjur.“