Á miðvikudag varð ljóst á máli Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, og Birgis Jónssonar, forstjóra flugfélagsins Play, að stjórnvöld hefðu átt samráð við hagsmunaðaila í ferðaþjónustu um upplýsingamiðlun vegna jarðhræringanna á Reykjanesi. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, gaf gleggri mynd af þessum afskiptum að kvöldi sama dags, þegar hann skrifaði:
„Það hefur verið samhent átak í upplýsingagjöf síðustu vikur, þar sem Íslandsstofa, Utanríkisráðuneytið, Ferðamálastofa, SAF hafa unnið með Almannavörnum að því að koma réttum upplýsingum um stöðuna á framfæri og leiðrétta rangfærslur. Það er enn í gangi og verður áfram á meðan þörf er á.“
Þessi ummæli birti Jóhannes við færslu innan Facebook-hópsins Bakland ferðaþjónustunnar, þar sem spurt var hvort fulltrúar hagsmunaaðila færu ekki að hafa meiri áhrif á umfjöllun fréttamiðla sem hefði verið „klaufaleg“ frá sjónarhóli greinarinnar, bæði innanlands og erlendis. Einn meðlimur í hópnum sagðist í athugasemd við færsluna hafa orðið fyrir 80–85% tekjufalli síðan 10. nóvember „út af þessum snarbiluðu fyrirsögnum.“ Hann spurði: „Fer ekki að verða kominn tími á átak hjá Íslandsstofu?“ Fleiri tóku undir.
Helstu aðferðir
Af svari Jóhannesar Þórs er ljóst að það átak er þegar hafið. Þegar hann var spurður nánar hvernig fulltrúar iðnaðarins, í samstarfi við stjórnvöld, reyni að hafa áhrif á fjölmiðla í þágu ferðaþjónustunnar svaraði Jóhannes: „T.d. með því að tryggja samræmdar upplýsingar á helstu vefsíðum, í útsendum tilkynningum, með beinum samskiptum við blaðamenn sem eru staddir hér á landi, með upplýsingagjöf til fyrirtækja, með samskiptum við fréttamiðla erlendis o.s.frv.“
Í umræðum undir færslunni birtist engin gagnrýni á þá hugmynd að stjórnvöld leyfi fulltrúum hagsmunaaðila í ferðaiðnaði að hafa afskipti af upplýsingamiðlun Almannavarna í þágu iðnaðarins, heldur virtust meðlimir hópsins frekar vilja meira af því sama. Eftir að Jóhannes taldi upp þær leiðir sem stjórnvöld beita nú þegar í þessu augnamiði var hann þannig spurður: „Hljómar vel, hvað með áhrifavalda? Er verið að pressa á erlenda fréttamiðla að leiðrétta missagnir? Þeir hafa enga ástæðu til þess að gefa út tilkynningar sem eru ekki jafn góð clickbeita og „Ísland gliðnar í sundur“ án þess að pressa einhvernveginn á þau.“