Landspítali hefur verið færður á óvissustig vegna jarðhræringanna á Reykjanesi. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birtist á vef sjúkrahússins í dag, mánudag. Þar er útskýrt nánar að óvissustig sé „fyrsta og vægasta stigun í viðbragðsáætlun Landspítala“ en samkvæmt henni hefjist nú „undirbúningur fyrir væntan atburð til að gæta fyllsta öryggis.“
Tveimur dögum fyrr, á laugardag, barst tilkynning frá sjúkrahúsinu um „mikið álag og forgangsröðun á bráðamóttökunni í Fossvogi“. Þar var fólk hvatt til að reyna að leita annað „ef því verður mögulega við komið.“ Sú tilkynning virðist raunar ekki hafa birst á vef Landspítala heldur aðeins á Facebook-reikningi hans, en hún var svohljóðandi:
„Á bráðamóttökunni í Fossvogi er þessa stundina mikið álag og margir sem bíða eftir þjónustu. Það er því rík ástæða fyrir fólk sem er ekki í bráðri hættu að hringja fyrst í 1700 eða leita upplýsinga á netspjalli Heilsuveru áður en leitað er þangað. Á bráðamóttökunni er forgangsraðað eftir bráðleika. Við aðstæður eins og nú eru getur fólk sem ekki er í bráðri hættu því þurft að bíða lengur en annars eftir þjónustu. Ef því verður mögulega við komið er þess vegna æskilegt að reyna að leita annað.“
Þetta var um svipað leyti og almannavarnir hófu rýmingar í Grindavík, en hafði þó ekkert með það ástand að gera, heldur stafaði álagstoppurinn nú, samkvæmt heimildum blaðamanns, ekki síst af þeirri Covid-19 bylgju sem herjað hefur á landið í haust. Sjúkrahúsið birtir vikulega skýrslu um stöðu öndunarfærasjúkdóma, síðast fyrir vikuna 30. október til 5. nóvember. Þá lágu 12 á sjúkrahúsinu með Covid-19 en tveir með inflúensu „sem er sambærilegt þeim fjölda sem hefur verið inniliggjandi undanfarnar þrjár vikur“ segir þar. Alls greindust 45 með Covid-19 í þeirri viku en 7 með inflúensu.
Ekki náðist á upplýsingafulltrúa Landspítala við vinnslu fréttarinnar, en sjúkrahúsið virðist um þessar mundir í flestum tilfellum neita að veita fjölmiðlafólki milliliðalaust samband við lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk sjálft.