Lindquist segir Margréti gæðastjóra RÚV hafa misnotað nafn sitt og orðspor

„Þegar ég áttaði mig á því að framleiðendur myndarinnar vildu ekki veita mér ritstjórnarlegt frelsi heldur vildu frekar troða sinni eigin útgáfu af sannleikanum upp á mig sagði ég af mér sem leikstjóri myndarinnar um sumarið 2020.“ Þetta skrifar sænski verðlaunablaðamaðurinn og kvik­mynda­gerð­ar­mað­ur­inn Bosse Lindquist í aðsendri grein sem birtist í Heimildinni í dag, miðvikudag, um heimildamyndina Baráttan um Ísland sem var á dagskrá RÚV í byrjun október.

Í allri kynningu myndarinnar á RÚV er Lindquist titlaður leikstjóri hennar. „Ég varð fyrir áfalli þegar ég sá þetta,“ skrifar hann, „enda hafði aðkomu minni að gerð heimildarmyndarinnar lokið þremur árum áður. Ég hafði ekki minnstu hugmynd um að haldið hefði verið áfram með gerð myndarinnar eða að til stæði að ljúka henni og sýna. Ég hafði hreint ekki leikstýrt þessari mynd.“ Hann skrifar að sér líði eins og nafn hans og orðspor sem sjálfstætt starfandi blaðamanns hafi verið misnotað.

„Að við gætum öðlast dýpri skilning“

Grein Lindquist ber yfirskriftina „Þegar ég fékk ekki frelsi til að rannsaka íslenska efnahagshrunið“. Þar segir hann frá því hvernig Margrét Jónasdóttir og framleiðslufyrirtækið Sagafilm settu sig í samband við hann árið 2019 og sögðust vilja „gera heimildarmynd um það hvaða áhrif alþjóðlega fjármálakreppan árið 2008 hafði á Íslandi. Af hverju átti hún sér stað, hver áhrifin urðu á Íslandi, hvernig tekist var á við hana og hverjar afleiðingarnar voru.“ RÚV, BBC og ríkissjónvarpsstöðvar Danmerkur og Svíþjóðar hafi fjármagnað verkefnið að hluta og viljað fá hann sem leikstjóra „vegna reynslu minnar sem rannsóknarblaðamanns, meðal annars út af heimildarþáttum mínum um plastbarkamálið og Paolo Macchiarini.“

Lindquist segist ekki hafa þurft að hugsa sig lengi um áður en hann þáði boðið, enda mætti nota Ísland sem sýnidæmi til að „greina þá undirliggjandi þætti sem leiddu til þessara hamfara á heimsvísu.“ Hann segist hafa vonað að „við gætum öðlast dýpri skilning okkar á því af hverju hrunið átti sér stað, og hvaða afleiðingar það hafði fyrir samfélagið og fyrir venjulegt fólk, með því að taka viðtöl við bankamenn, stjórnmálafólk, saksóknara, dómara, hagfræðinga og ekki síst almenning sem lenti í því að lífi þeirra var umturnað nánast á einni nóttu.“

Framleiðandi vildi vera viðstödd öll viðtöl

Snemma í vinnuferlinu segist hann hafa verið minntur á það af mörgum á Íslandi að landið væri „lítil eyþjóð“ og þar fyndist viss „norræn spilling“, ákvarðanir teknar með óséðum hætti innan óformlegra samtaka og hópa. „Þetta er mein,“ skrifar Lindquist, „sem er einnig til staðar í Svíþjóð og þar sem mér hafði í fortíðinni tekist að vinna rannsóknarvinnu í innviðum læknavísinda, stjórnmála og fræðaheimsins í Svíþjóð bjóst ég við því að ég myndi ekki lenda í vandræðum á Íslandi. Ég hafði rangt fyrir mér.“

Eftir nokkurra mánaða vinnu hafi honum orðið ljóst að „það voru ákveðin takmörk fyrir því hversu djúpt framleiðendur myndarinnar vildu að ég myndi grafa.“ Lindquist segir að hann hafi ekki mátt taka viðtöl við „ákveðna einstaklinga“ og hann hafi skynjað að samhliða samtölum sem hann var þátttakandi í hafi átt sér stað önnur „sem mögulega voru byggð á vináttu og gömlum kunningsskap.“ Þá hafi framleiðandinn Margrét Jónasdóttir krafist þess „að vera viðstödd nánast öll viðtölin.“ Í fyrstu hafi hann talið að það væri af einskærum áhuga en eftir smá tíma hefði honum tekið að líða „eins og ég væri með yfirfrakka á mér og að við hefðum ekki sömu markmiðin um hverju vinna okkar myndi skila.“

Vildu loks ekki rannsóknarvinnu

Eftir hálfs árs vinnu hafi Margrét og Sagafilm loks upplýst Lindquist um að „þau þyrftu ekki á rannsóknarvinnu að halda. Þau vildu ekki að ég myndi fara ofan í smáatriði hlutanna og vinna djúpa rannsóknarvinnu. Þau voru ánægð með að endursegja hlutina yfirborðslega, án þess að reyna að greina frá dýpra gangverki hrunsins, eða að spyrja lykilþátttakendur þess hinna virkilega erfiðu spurninga.“ Þau hafi verið með aðra hugmynd um það hvers konar sögu ætti að segja: „Þau vildu frekar segja sögu um það hvernig hlutirnir urðu erfiðir á Íslandi um tíma, aðallega vegna þess að einhverjir hefðu brotið af sér hinum megin á hnettinum, sérstaklega í London og New York. Þau vildu segja söguna af því hvernig umheimurinn kom fram við Ísland með ósanngjörnum hætti en að á endanum, sökum þess hversu sniðugir Íslendingar eru, hafi allt farið vel og að Ísland sé nú ríkara en nokkru sinni fyrr.“

Lindquist segist hafa reynt að benda framleiðendunum á sínar röksemdir „en án árangurs.“ Þegar hann áttaði sig á því „að framleiðendur myndarinnar vildu ekki veita mér ritstjórnarlegt frelsi heldur vildu frekar troða sinni eigin útgáfu af sannleikanum upp á mig“ hafi hann sagt af sér sem leikstjóri myndarinnar. Það var sumarið 2020. Eftir það segir hann að framleiðendurnir hafi sent honum nokkrar grófklipptar útgáfur af myndinni sem hann svaraði að sér þættu „mjög langt frá því að vera sýningarhæfar.“ Lokaútgáfu myndarinnar hefur hann enn ekki séð.

„Líður mér eins og nafn mitt og orðspor … hafi verið misnotað“

„Spurningin sem brennur á mér er því þessi,“ skrifar Lindquist loks: „Af hverju reyndu RÚV og Sagafilm þá að segja að ég væri leikstjóri Baráttunnar um Ísland þrátt fyrir að ég hafi ekki leikstýrt myndinni og að Margrét og Sagafilm hafi ekki verið með sömu sýn og ég á þetta verkefni? Og af hverju vildu þau að ég væri þátttakandi í þessu til að byrja með? Eftir allt sem á undan er gengið þá get ég ekki varist þeirri tilhugsun að þau hafi viljað tengja nafn mitt og orðspor við þetta verkefni, en að þau hafi í reynd ekki viljað sýn mína og reynslu sem kvikmyndagerðarmanns sem stundar rannsóknarblaðamennsku. Sökum þess líður mér eins og nafn mitt og orðspor sem sjálfstætt starfandi blaðamanns hafi verið misnotað. Og það sem verra er, sökum þess hversu barnalegur ég líklega var, þá hafi ég blekkt viðmælendur mína með því að láta þá halda að ég myndi tryggja gæði heimildarmyndarinnar, þegar ég í reynd gat það ekki. Mér þykir það mjög leitt.“

Lindquist lýkur greininni á að segja nefna að enn eigi eftir að „segja frá einstakri reynslu Íslendinga í bankahruninu árið 2008 í sanngjarnri, hlutlausri og margradda heimildarmynd.“ Viðmælendur hans hafi flestir viljað „virkilega reyna að dýpka skilning fólks á því af hverju og hvers vegna bankahrunið átti sér stað.“ Það verkefni bíði þess enn að einhver taki það að sér.

Tengt efni

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí