Fyrir tveimur árum greindi Kveikur frá því að Bláa lónið væri í sérflokki hvað varðar arðgreiðslur hjá þeim 50 fyrirtækjum sem mestan styrk fengu úr ríkissjóði vegna COVID. Styrkurinn var hugsaður til þess að greiða hlut launa starfsfólks á uppsagnarfresti. Kveikur komst hins vegar að því að Bláa lónið hefði fengið 590 milljónir króna í uppsagnarstyrk, en skömmu áður hefðu hluthafar fyrirtækisins fengið samtals jafnvirði um 7,8 milljarða króna í arð frá félaginu.
Með öðrum orðum þá hefðu eigendurnir grætt svo svínslega á lóninu að þeir höfðu alla burði til þess að borga starfsfólki sínu uppsagnafrest. Þrátt fyrir það fengu þeir sérstakan styrk frá ríkinu til þess að standa við skuldbundingar sínar við starfsmenn.
Nú er talað um að nauðsynlegt sé að byggja varnargarða til að koma í veg fyrir að lónið leggist undir hraun. Það gefur augaleið að slíkur varnargarður verður ekki ódýr. Munu eigendur, sem hafa grætt milljarða á lóninu, koma að kostnaði við varnargarðinn?
Hjalti Már Björnsson bráðalæknir bendir á þetta á Facebook. „Nú er rætt um að setja nokkra milljarða í að verja Svartsengi og Bláa lónið fyrir væntanlegu hraunflæði – sem hljómar skynsamlega ef jarð- og verkfræðingar telja líklegt að varnargarður geti bjargað þessum mikilvægu mannvirkjum,“ skrifar Hjalti og bætir við:
„Ég geri ráð fyrir að Bláa lónið muni þá taka þátt í kostnaðinum við það verkefni, t. d. með því að nota þær 600 milljónir af skattpeningum okkar sem fyrirtækið fékk afhentar árið 2021.“