Nokkrir þingmenn hvetja ráðherra til að lögleiða líknardráp, líkt og þrjú ríki í Evrópu

Nokkrir þingmenn úr röðum stjórnar og stjórnarandstöðu útbýttu í dag á Alþingi þingsályktunartillögu um „dánaraðstoð“. Þetta orð segja þau, í greinargerð með ályktuninni, vera þýðingu á gríska orðinu euthanasia sem lengstaf hefur verið nefnt líknardráp eða líknardauði á íslensku. Um er að ræða heimild heilbrigðisstarfsfólks til að stuðla að eða hraða dauða fólks að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, þá helst með það í huga að lina þjáningar.

Ályktunin sjálf, verði hún samþykkt, er knöpp: „Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að undirbúa og leggja fram frumvarp til laga sem heimilar dánaraðstoð.“

Í greinargerðinni er greint nánar frá því sem að baki liggur. Í fyrsta lagi er tilgreind skoðanakönnun sem gerð hafi verið og leitt í ljós að bæði heilbrigðisstarfsfólk og almenningur séu í vaxandi mæli hlynnt því að læknum verði heimilt að hraða andláti fólks þegar eftir því er leitað og tilefni þykir til.

Sex ríki í heiminum leyfa líknardráp

Þá vísa þingmennirnir til nokkurra erlendra fyrirmynda á sviðinu. Fyrst nefna þau Sviss, þar sem „aðstoð við að binda enda á eigið líf“ hafi verið lögleidd árið 1937. Síðan tilgreina þau Oregon-fylki í Bandaríkjunum, þar sem dánaraðstoð hafi verið leyfð árið 1997. Að síðustu nefna þau Holland, sem hafi lögleitt dánaraðstoð árið 2002, og tilgreina nánar að þar sé hvort tveggja um ræða „læknisfræðilega aðstoð við að deyja og aðstoð við að binda enda á eigið líf.“

Loks nefna flutningsmenn tillögunnar baráttu samtaka sem hafa valið sér nafnið „Lífsvirðing, félag um dánaraðstoð“ en félagið hefur um nokkurra ára skeið knúið á um lagaheimildir af þessum toga. Í greinargerðinni segjast flutningsmenn telja „tímabært að dánaraðstoð verði heimiluð hér á landi samkvæmt ströngum skilyrðum í samræmi við lagaákvæði í Hollandi og öðrum ríkjum sem heimila dánaraðstoð.“

Í lögum allra ríkja gildir almennt bann við manndrápum, sem teljast með allra alvarlegustu glæpum. Lögleiðing dánaraðstoðar felur þannig í sér undanþágu frá þeirri meginreglu. Fá lönd veita slíka undanþágu, en þau virðast nú alls vera sex í heiminum: Benelux-löndin þrjú: Holland, Belgía og Lúxemborg, ásamt Kólombíu, Kanada og Ástralíu. Samkvæmt greinargerð þingmannanna mætti ef til vill bæta Oregon-fylki Bandaríkjanna á þann lista. Loks eru slík lög sögð í undirbúningi í Portúgal.

Yrðu slík lög sett á Íslandi yrði landið því mögulega sjöunda ríki heims þar sem slíkt athæfi yrði leyft, það fjórða í Evrópu.

Hollenskur siðfræðingur varar við fenginni reynslu

Á Írlandi hefur komið til tals að lögleiða líknardráp eða dánaraðstoð. Hollenskur siðfræðingur varaði nýverið landið við því að feta þann veg, og sagði hollensku lögin hafa snúið „landslagi dauðans á hvolf“. Theo Boer heitir hann, prófessor við Miðstöð Lífsiðfræði og mannlegrar reisnar, og meðlimur opinberrar nefndar sem tók tilfelli dánaraðstoðar til skoðunar í áratug, frá 2005 til 2014.

Theo Boer tekur fram að hann sé ekki mótfallinn líknardrápi í öllum tilfellum, sem hann segir að geti stundum verið „skynsamlegt“. Hann sagði hins vegar öra fjölgun tilfella vera ógnvænlega. Á tuttugu árum hafi fjöldi líknardrápa í Hollandi fjórfaldast. Fimm prósent dauðsfalla í Hollandi eru nú framkvæmd með þessum hætti, alls 8.720 á síðasta ári. Þar af þáðu 115 manns slíka „aðstoð“ vegna geðrænna kvilla.

Þá segir Boer að smátt og smátt hafi víkkað út hvaða undirliggjandi greiningar þyki nægilegur rökstuðningur til líknardráps: „Frá sjúklingum sem óttast að verja síðustu dögum eða vikum lífs síns í sársauka og örvæntingu, óttast að kafna, það var sá flokkur sjúklinga sem eitt sinn þótti brýnasta ástæðan til þess að heimila líknardráp í landinu til að byrja með. Ég held að það sé enn tilfellið á Írlandi og í Bretlandi. En hér sjáum við tilfærslu að sjúklingum sem óttast að vera einmana árum eða áratugum saman, einangruð eða háð öðrum.“

Nokkuð hefur verið rætt um hættuna á að tekjulágir og fólk í öðrum viðkvæmum hópum séu berskjaldaðri fyrir líknardrápi en aðrir hópar. Rannsókn sem gerð var í Hollandi árið 2021 sýndi fram á að líknardráp voru algengari meðal tekjulágra en annarra.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí