„Mælt er með því að hafa rafmagnsbíla hlaðna á öllum stundum því ekki verður hægt að hlaða þá ef kemur til svona neyðarástands,“ sagði Páll Erland, forstjóri HS Orku, á upplýsingafundi almannavarna vegna stöðunnar á Reykjanesskaga nú á mánudag. Vísaði hann þá til sviðsmynda, sem nú er fengist við, þar sem mögulegt eldgos á eða í grennd við Svartsengisvirkjun, yrði til þess að rafmagnslaust yrði á Reykjanesi, að hluta eða í heild.
Á fundinum voru almenningi veittar upplýsingar um eftirlit Veðurstofunnar, viðbrögð Almannavarna og undirbúningur HS Orku vegna yfirstandandi kvikusöfnunar og mögulegs eldgoss á Reykjanesi.
„Ef svona miklar náttúruhamfarir verða og svona mikið neyðarástand er það komið úr höndum einstakra fyrirtækja, að leysa,“ sagði Páll.
Bæði RÚV og Vísir héldu úti beinni textalýsingu frá fundinum, sem auk þess var streymt í beinni útsendingu á báðum vefum.
Opinn íbúafundur í Reykjanesbæ er fyrirhugaður á miðvikudag. „Ef eitthvað gerist í þessa veru erum við á vaktinni, við öllu búin og munum gera okkar besta,“ sagði Páll.