Lögregla „þjálfar sérfræðinga“ í brottvísunum og stækkar Stoðdeild

Á miðvikudag birti mbl.is knappt viðtal við Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra um stefnu hennar í útlendingamálum. Tilefni viðtalsins er mál Isaac Kwateng, vallarstjóra Þróttar, sem er fæddur í Gana. Hann sótti um alþjóðlega vernd á landinu árið 2017, var brottvísað nú í haust en er væntanlegur til landsins aftur, að fengnu atvinnu- og dvalarleyfi. Dómsmálaráðherra notaði mál hans sem dæmisögu um hvernig hún vilji ekki „blanda þess­um kerf­um sam­an, ann­ars veg­ar vernd­ar­kerf­inu og hins veg­ar dval­ar- og at­vinnu­kerf­inu.“

Þá ítrekaði ráðherrann það álit sitt að „ekki sé til neitt sem kall­ist um­bor­in dvöl“ í samhengi við fólk sem hefur verið neitað um vernd. Ráðherrann segir að fólk sé ekki í „umborinni dvöl“ að liðnum 30 daga fresti eftir það, heldur „ólöglegri“. Þar á hún við þau sem hefur verið úthýst úr húsnæðissúrræðum yfirvalda án þess að brottvísun sé fyrirliggjandi eða möguleg, er bannað að vinna fyrir sér og hefst því við á landinu í réttindalausu limbói.

Stækka stoðdeildina, ráða starfsfólk

Í framhaldi af þeim ummælum spurði blaðamaður mbl.is um kostnað stjórnvalda við brottvísanir. Guðrún sagðist ekki getað svarað til um heildarkostnaðinn, meðal annars vegna þess að um þessar mundir séu stjórnvöld að „styrkja stoðdeild ríkislögreglustjóra“. Stoðdeild ríkislögreglustjóra er deild með aðeins eitt hlutverk, sem er að framkvæma brottvísanir. Deildin hefur aðsetur í sama húsnæði og Útlendingastofnun, við Bæjarhraun í Hafnarfirði, og má líta á sem nokkurs konar framlengingu á hennar, eða þann hluta sama kerfis sem hefur valdbeitingarheimildir: þegar Útlendingastofnun úrskurðar um brottvísun sér Stoðdeildin um að færa manneskjurnar sem eiga í hlut um borð í flugvél og af landinu.

„Við erum að styrkja stoðdeild Ríkislögreglustjóra,“ sagði Guðrún, „en þar erum við í rauninni að búa til deild sem held­ur mjög þétt utan um þessa ein­stak­linga sem fá hér synj­un. Þar höf­um við verið að ráða starfs­fólk og verið að stækka þá deild þannig að við erum bara ekki kom­in með á hreint hver end­an­leg­ur kostnaður við hana verður.“

Heimferðin „farsæl, örygg og trygg“

Að því sögðu lét hún í veðri vaka að stoðdeildin gegni nokkurs konar þjónustuhlutverki gagnvart þeim sem hún neyðir burt af landinu: „Vita­skuld er eins og þvingaður brott­flutn­ing­ur gríðarlega dýr og þess vegna með því að styrkja stoðdeild­ rík­is­lög­reglu­stjóra að þá er það hlut­verk þeirra að vera í mjög góðu sam­bandi við þá ein­stak­linga sem fá synj­un hér á landi og vera í góðu sam­tali og sam­vinnu við það fólk að það fari sjálf­vilj­ugt af landi brott.“ Hún sagði að verið væri að þjálfa fólk upp í „þessu verklagi“ og hljómaði eins og sölufulltrúi ferðaskrifstofu, ef marka má blaðamann mbl.is, sem hafði eftir ráðherranum að „úr séu að verða mjög hæf­ir sér­fræðing­ar sem aðstoði fólk með sem best­um hætti svo heim­ferð þess geti orðið far­sæl, ör­ugg og trygg.“

Loks bætti ráðherrann við: „Þetta er auðvitað auk­inn kostnaður en það er mitt mat að það borgi sig að halda vel utan um þá ein­stak­linga sem þurfa að fara héðan og halda góðu sam­bandi við fólkið, upp­lýsa það um rétt­indi sín og upp­lýsa það einnig um hvernig heim­ferðin fer fram. Þannig náum við meiri ár­angri.“

Heimild: mbl.is.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí