Nú síðdegis í dag greindi RÚV frá því að Isaac Kwateng, vallarstjóri Þróttar, væri kominn með atvinnuleyfi á Íslandi. Lögmaður hans gerir ráð fyrir að dvalarleyfi og vegabréfsáritun fylgi í kjölfarið á allra næstu dögum. Hann var fluttur úr landi í lögreglufylgd fyrir rúmum tveimur vikum og má ætla að talsverður kostnaður hafi fylgt því.
Þess vegna spyr Helga Vala Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, hvort Þórdís Kolbrún Gylfadóttir fjármálaráðherra telji það hafa verið skynsamlega ráðstöfun á opinberu fé. Helga Vala skrifar á Facebook:
„Nú vil ég spyrja fjármálaráðherra; telur hún þetta vera skynsamlega ráðstöfun á opinberu fé að sama stofnun og er að vinna í umsókn einstaklings um atvinnu- og dvalarleyfi kaupi á sama tíma flugmiða fyrir sama einstakling (og eftir atvikum fylgdarlið) út úr landi? Hvers vegna ekki að draga það um hálfan mánuð/ mánuð og spara aurinn svona ef fólk er bókstaflega ekkert að velta fyrir sér manneskjunum þarna á bakvið tölurnar?“