Scholz boðar herta stefnu Þýskalands gegn flóttafólki

„Mjög söguleg stund“ – þannig lýsti Olaf Scholz, kanslari landsins úr röðum sósíal-demókrata, morgni þessa þriðjudags þegar hann boðaði nýja stefnu í innflytjendamálum: „skýrar og markvissar aðgerðir gegn óreglulegum innflutningi.“ Scholz hyggst þannig – að einhverju leyti – snúa baki við þeirri stefnu sem Angela Merkel, forveri hans í embætti, markaði andspænis fjöldaflótta frá Sýrlandi frá og með árslokum 2015, þegar Þýskaland tók við milljón flóttamönnum á skömmum tíma undir þeim formerkjum sem Merkel beitti til að svara áhyggjuröddum: „Wir schaffen es“ – Við reddum því. Sem þau og gerðu.

Þvert á móti segir kanslarinn nú að það sé sameiginlegt markmið stjórnvalda að „draga úr óreglubundnum innflutningi.“ Tilkynning kanslarans barst eftir ströng, næturlöng fundarhöld með leiðtogum allra sextán sambandandsríkja sambandslýðveldisins Þýskalands. Til fundarins var boðað vegna umkvartana þeirra um álag á innviði ríkjanna, vegna fjölda innflytjenda.

Niðurstaða fundarins var að ríkisstjórn Þýskalands mun greiða yfirvöldum sambandsríkjanna og sveitarfélaga þeirra 7.500 evrur, eða rúma milljón íslenskra króna, fyrir hvern flóttamann sem þau taka á móti, frá og með næsta ári. Stóra breytingin frá fyrra fyrirkomulagi er að þessar greiðslur munu miðast við mannfjöldann, en áður var í fjárlögum lýðveldisins gert ráð fyrir heildarsummu, nú 3,7 milljörðum evra, óháð fjölda umsækjenda. Á sama tíma verður fjárhagsstuðningur við umsækjendur um vernd skorinn niður um 1 milljarð evra alls, til dæmis með því að lengja biðtímann þar til þeir geta notið fullra félagsbóta.

Evrópa hækkar múrana

Yfirlýsing kanslarans birtist daginn eftir að forsætisráðherra Ítalíu tilkynnti um samkomulag landsins við Albaníu, um að annast varðhald allt að 39.000 umsækjenda um vernd á ári, úr hópi þeirra sem ítalska landhelgisgæslan bjargar á Miðjarðarhafi, viku eftir að Austurríki lýsti yfir áhuga á að fara sömu leið og Bretland og semja um slíka útvistun á hluta verndarkerfisins til Afríkuríkisins Rúanda. Þann möguleika viðraði Scholz líka á þriðjudag, það er að útvista rekstur varðhaldsbúða eða annarra viðlíka „búsetuúrræða“ til þriðja ríkis, utan Evrópusambandsins. Um leið tjáði hann þó efasemdir um að það stæðist stjórnarskrá landsins og að önnur lönd myndu fallast á slíkt fyrirkomulag.

Rúmar 83 milljónir manna búa í Þýskalandi. Þar af eru 3,1 milljón innflytjendur sem þar hafa sótt um alþjóðlega vernd. Af þeim hefur 1,3 milljón hlotið stöðu flóttamanns, 1,1 milljón sérstaka stöðu fyrir flóttafólk frá Úkraínu, tæp 300.000 hafa aðra viðurkenningu réttinda, rúm 270.000 bíða enn úrvinnslu umsókna en tæplega 170.000 hefur verið synjað og ber, að mati stjórnvalda, að yfirgefa landið. Á síðasta ári var tæplega 12.000 manns brottvísað frá Þýskalandi. Að sögn stjórnvalda gæti brottvísunum fjölgað um 600 á þessu ári, með breyttri löggjöf.

Þýskaland hefur tekið við yfir milljón flóttamanna frá Úkraínu frá innrás Rússa í landið við upphaf ársins 2022. Fyrstu níu mánuði ársins í ár hlutu um 230.000 manns stöðu flóttamanns eða viðlíka vernd í Þýskalandi. Það eru fleiri en allt árið 2022 en þó umtalsvert færri en á árunum 2016 og 2017. Í millitíðinni hefur pólitíska staðan í landinu orðið fyrir verulegum breytingum, sem má einfalda með því að segja: til hægri.

„Jæja, hvert förum við nú?“

Innflytjendur í Þýskalandi hafa ekki farið á mis við hægrisveifluna í stjórnmálum þar eins og víðar í Evrópu: í grein sem Fatma Aydemir skrifar og birtist í The Guardian í dag, þriðjudag, segir hún að nýtt viðfangsefni hafi skotið upp kollinum í samsætum í Berlín: jafnvel bláókunnugt fólk spyrji á einhverjum tímapunkti hvert annað: „Jæja, hvert förum við nú?“ og viti nákvæmlega hvað er átt við: innan tveggja ára verður kosið í landinu og mögulegt, segja skoðanakannanir, að AfD komist í ríkisstjórn, flokkurinn sem var óumdeilt að teldist öfga-hægriflokkur þegar hann kom fyrst fram á sjónarsviðið.

Það sem hefur breyst síðan þá er ekki öfga-hægri-flokkurinn heldur stjórnmálin, sem hafa færst til svo að flokkurinn stendur nær miðju þeirra nú en hann gerði við stofnun hans fyrir áratug síðan. Í Guardian-greininni vísaði Aydemir til dæmis til forsíðu á fréttaritinu Spiegel í síðasta mánuði, þar sem andlitið á kanslaranum Scholz prýðir fyrirsögn sem er innan gæsalappa, tilvitnun í hann sjálfan: „Nú þurfum við að hefja brottvísanir í stórum stíl.“ Að því leyti má ætla að tilkynning Scholz í dag hafi ekki komið alfarið á óvart, en hún boðar útfærslu og um leið alvöru þess ásetnings sem stjórnvöld höfðu þegar lýst.

Heimildir: Reuters, AP, Welt, ZDF. Yfirlýsing kanslarans.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí