Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir að um 80 prósent starfsmanna Norðuráls hafi skrifað undir yfirlýsingu þar sem þeir krefjast þess að fyrirtækið dragi til baka uppsögn á sjö barna föður sem var sagt upp eftir 17 ára starf. Ástæðan fyrir því að honum var sagt upp störfum væri hlægileg ef þetta væri ekki svo alvarlegt mál.
„Eins og ég fjallaði um fyrir akkúrat einum mánuði síðan þá var sjö barna föður sagt upp eftir 17 ára starf hjá Norðuráli. En ástæður uppsagnar sem honum voru gefnar var að hann væri að tala illa um fyrirtækið og hafi mætt á fjölskylduskemmtun sem Norðurál hélt án þess að skrá sig. Verkalýðsfélag Akraness mótmælti þessari uppsögn harðlega og krafðist þess við forsvarsmenn NA að hún yrði afturkölluð en fyrirtækið varð ekki við þeirri beiðni,“ segir Vilhjálmur á Facebook.
Hann vonast til þess að samtakamáttur starfsmanna muni fá fyrirtækið af því að reka þennan mann. „Það sem hefur gerst í framhaldinu er að 80% óbreyttra starfsmanna á „gólfinu“ af öllum vöktum í steypuskála skrifuðu undir yfirlýsingu. Þeir gerðu þá skýlausu kröfu að tryggt yrði að nöfn þeirra sem skrifuðu undir bærust alls ekki til forsvarsmanna Norðuráls enda óttast starfsmenn um atvinnuöryggi sitt við að taka þátt í að koma þessum mikilvægu skilaboðum á framfæri til yfirstjórnar. Starfsmenn telja uppsögnina vera siðferðislega ranga og ekki standast skoðun. Þeir krefjast þess í þessari yfirlýsingu að uppsögn xxxxxxxx verði dregin til baka enda eru þær ávirðingar sem á hann voru bornar ekki sannleikanum samkvæmar,“ segir Vilhjálmur.
Hann segist afskaplega stoltur af sínum félagsmönnum fyrir þetta framtak. „Ég sem formaður VLFA er stoltur af mínum félagsmönnum sem starfa í steypuskálanum sem hafa kjark og þor til að standa gegn óréttlæti eins og birtist í þessari uppsögn en það er einsdæmi að 80% starfsmanna skuli undirrita slíka yfirlýsingu. Þessi yfirlýsing var gerð að frumkvæði starfsmanna því þeim var gjörsamlega misboðið eins og afar mörgum í íslensku samfélagi. Þau óskuðu eftir að Verkalýðsfélag Akraness kæmi þessari yfirlýsingu á framfæri við yfirstjórn Norðuráls og óskuðu eftir við VLFA að ef ekkert svar kæmi viku eftir að hún barst forsvarsmönnum Norðuráls yrði hún birt opinberlega. Því miður kom ekkert svar frá Norðuráli og því birtist hún hér með,“ segir Vilhjálmur en yfirlýsingu 80 prósent óbreyttra starfsmanna má sjá hér fyrir neðan.