Tæp 40 prósent íbúa ESB-ríkja ferðast ekki, í þeim skilningi að taka þátt í ferðamennsku, samkvæmt nýbirtum gögnum ársins 2022. Þar vantar reyndar gögn frá örfáum löndum, þar á meðal frá Spáni, Sviss og Bretlandi.
Eftir sem áður virðist megintilhneiging ljós: eftir því sem austar og sunnar dregur eru fleiri sem ekki ferðast, en norðar og vestar í álfunni taka flestir þátt í ferðamennsku. Þannig ferðaðist aðeins minnihluti íbúa í Búlgaríu og Rúmeníu árið 2022, eða undir 30 prósentum. Um 40 prósent Ítala ferðuðust og rétt ríflega það í Grikklandi og Portúgal. Á móti ferðuðust um 90 prósent Norðmanna, 84 prósent Hollendinga, Finna og íbúa í Lúxemborg, 80 prósent Frakka og 70 prósent Svía.
Megintilhneigingin er þó ekki án undantekninga. Aðeins um 55 prósent Dana ferðuðust árið 2022, sem liggur þar á sama bili og Ungverjaland og Lettland.
Veigamesta tilgreinda ástæða þess að íbúar landanna ferðuðust ekki er fjárhagsleg: 38 prósent Búlgara og 36 prósent Rúmena sögðust ekki taka þátt í ferðamennsku af fjárhagslegum ástæðum. Sama á við um sirka 30 prósent Grikkja og Portúgala, 20 prósent Ítala – en aðeins 3 prósent Spánverja og Finna, svo dæmi séu tekin af hinum endanum. Í það heila ferðuðust um 15 prósent íbúa ESB-ríkjanna ekki á árinu, af fjárhagslegum ástæðum. Um 12 prósent nefndu tímaskort, ýmist vegna fjölskylduskuldbindinga (um 5 prósent) eða vinnu og náms (um 7 prósent). Til samanburðar tilgreindu aðeins um 8 prósent heilsufarslegar ástæður og ferðuðust ekki af þeim sökum, í álfunni allri.
Af þeim þjóðum sem lítið ferðuðust á árinu var algengast að Danir tilgreindu ástæðu sína sem „aðrar ástæður“, það er að segja tilgreindu þær ekki. Um 20 prósent íbúa Danmerkur sögðust ekki taka þátt í ferðamennsku af ótilgreindum ástæðum. Þeim fjölgaði fimmfalt milli kannanna, frá 2019.
Heimild: Eurostat.