Stýrivextir hafa aukið verðbólgu nýverið og árangur af aðgerðum Seðlabankans hingað til er lítill, enda ákveðnar á grundvelli rangra kenninga um orsakir verðbólgunnar, segir Stefán Ólafsson prófessor emeritus og sérfræðingur hjá Eflingu í grein sem Vísir birti í gær, laugardag. Nú munu jarðhræringar við Grindavík hugsanlega hægja á hagvexti en stórauka eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði, sem var of mikil fyrir, skrifar hann. „Á sama tíma eru óvenju háir stýrivextir Seðlabankans að hægja stórlega á framleiðslu nýrra íbúða, eins og Samtök iðnaðarins hafa ítrekað bent á.“
Stefán segir að nú þurfi að söðla um í peningastefnu. Lækkun stýrivaxta myndi létta á verðbólguþrýstingi og skuldabyrði fyrirtækja; gefa byggingariðnaðinum merki um betri tíð sem hefði jákvæð áhrif á áform um nýbyggingar; og senda jákvæð skilaboð til verkalýðshreyfingarinnar sem gæti „gæti stuðlað að varfærari launahækkunum á fyrsta ári nýs kjarasamnings til þriggja ára.“