Verðbólgan meiri nú og þrálátari en í Íslandskreppunni og þegar Netbólan sprakk

Verðbólgan er ekkert að gefa eftir þrátt fyrir miklar vaxtahækkanir. Hún virðist vera að festast í 8-9 prósentum, keyrð áfram af marghátta hækkunum en mest á mat og húsnæði. Þetta er því djöfullegt ástand fyrir hin verst stæðu sem eyða öllu sínu aflafé í mat og húsnæði. Eina leið fyrir láglaunafólk til að mæta þessari lífskjarakrísu er að krefjast launahækkana til að vinna upp tapaðan kaupmátt, en það er einmitt það sem stjórnvöld og Seðlabanki telja einu leiðina til kveða niður verðbólguna, að koma í í veg fyrir hækkanir launa.

Hér má sjá verðbólgu á Íslandi á þessari öld á grafi Hagstofunnar. Rauð lína hefur verið dregin eftir núverandi verðbólgu til glöggvunnar.

Þarna sést vel að verðbólgan er fylgifiskur heimskulegrar efnahagsstjórnar sem eltir brask og glæframennsku í viðskiptum. Fyrst slær verðbólgan yfir rauðu línu í kjölfar þess að netbólan sprakk, glæfraskapar sem snerist um kenningu um að ný tækni myndi breyta öllum forsendum viðskipta. Næst fór verðbólgan upp úr rauða strikinu í svokallaðri Íslandskreppu um páskana 2006, sem var einskonar varúðarljós fyrir komandi hrun, ábending um að glæfraskapur fyrirtækja- og fjármagnseigenda myndi steypa yfir okkur efnahagsþrengingum. Það gerðist síðan með fullum þunga 2008 og landsmenn voru lengi að vinna sig út úr þeim hörmungum, fjöldi fólks missti heimili sín og kaupmáttur hrapaði niður. Það var ekki fyrr en 2015 að launafólk fór að vinna til baka kaupmáttinn sem það hafði tapað í Hruninu. En áfall Hrunsins var svo mikið í fyrirtækjum og meðal stjórnvalda, bankarnir féllu meðal annars í fang ríkisins, að glæframennskan kom ekki jafn fljótt til baka og áður. Auk þess styrkti fjölgun ferðamanna gengi krónunnar og dró þannig úr sveiflunum.
Fylleríið hófst síðan á fullum þunga fyrir og í cóvid-faraldrinum þegar stjórnvöld lækkuðu vexti sem leiddu til eignabólu í húsnæði og hlutabréfum og dældu auk þess út fé til fjármagns- og fyrirtækjaeigenda til að bæta þeim meint tap á gróða. Velferðarríki fjármagnsins var skrúfað í botn. Við erum að súpa seiðið af þeirri efnahagsstjórn í dag, og þá auðvitað fyrst og fremst þau tekjulægstu. Aukinn ferðamannastraumur nær ekki að draga úr áhrifunum með gengisstyrkingu og þar með einskonar niðurgreiðslu á innflutningi. Það sem áður hjálpaði, aukinn ferðamannastraumur, eykur nú á vandann, magnar upp þenslu sem getur ekki staðið undir betri lífskjörum.

Við erum enn og aftur lent í kreppu sem rekja má til þess að bröskurum og glæframennum er falin stjórn efnahagskerfisins, búandi í landi þar sem stjórnvöld hafa hafnað hlutverki sínu að hemja braskið, okrið og yfirganginn. Ekkert bendir til að stjórnvöld ætli að draga lærdóm af fyrri mistökum. Við sitjum því uppi með reglulegar kreppur. Eina tillaga stjórnvalda nú er að launafólk éti kreppuna þegjandi, láti þessa vitleysu yfir sig ganga enn á ný.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí