„Ég upplifi það í þessum læknahópi og almennt í samfélaginu að fólk finni sig máttvana en vilji hafa áhrif. Það upplifi að geta ekkert gert til að hafa áhrif á ástandið. En ég er ósammála því. Við getum öll haft einhver áhrif og við læknar erum bæði í ábyrgðar- og forréttindastöðu til að hafa áhrif á stjórnvöld.“
Þetta segir Linda Ósk Árnadóttir, sérnámslæknir í skurðlækningum á Västerås-sjúkrahúsinu, í viðtali við Læknablaðið. Hún, ásamt Stellu Rún Guðmundsdóttur og Rögnu Sigurðardóttur, leiddi hvatningu íslenskra lækna sem varð til þess að 400 læknar sendu bréf til íslenskra stjórnvalda á dögunum, þar sem þess var krafist að Ísland myndi beita sér fyrir tafarlausu vopnahléi á Gaza. „Mér finnst átakanlegt að sjá að ríkisstjórnin á Íslandi beitir sér ekki á neinn hátt fyrir friði,“ segir Linda Ósk.
Linda þekkir vel til Palestínu en hún vann sem læknanemi á skurðsjúkrahúsi í Nablus í Palestínu. Svo er hún einnig gift manni af palestínskum ættum, Yousef Inga Tamimi svæfingahjúkrunarfræðingi. Hún fordæmir ítrekaðar árásir Ísraelsmanna á sjúkrahús í Palestínu. „Læknarnir gera aðgerðir án svæfinga og verkjalyfja. Þeir sjá um nýfædd börn og fyrirbura, og almenna borgara, án þess að geta veitt þeim rétta meðferð,“ segir Linda Ósk.