Bjarni hefur aldrei haft neitt teflon – ekki í augum almennings

Útbreiddasti misskilningur íslenskra stjórnmála er að Bjarni Benediktsson sé teflon-maður, að það sé sama í hvaða skammir hann ratar í ekkert dragi úr vinsældum hans, að almenningur treysti honum þótt hann hafi kannski ekki unnið til traustsins. Það hefur aldrei verið innistæða fyrir þessum fullyrðingum, eins og sjá hefur mátt á mælingu á trausti til Bjarna yfir hans ráðherratíð.

Þetta sýnir mælingar á trausti almennings til Bjarna frá því hann varð fjármálaráðherra 2013 og fram í síðasta mánuð, þegar hann hafði vikið úr fjármálaráðuneytinu vegna Íslandsbankasölunnar og fært sig yfir í utanríkisráðuneytið.

Á grafinu eru punktalínur sem sýna afstöðu Bandaríkjamanna til Richard Nixon forseta um það leiti sem hann sagði af sér og flaug á þyrlu burt frá Hvíta húsinu. Bjarni hefur átt í erfiðleikum með að halda traustinu fyrir ofan það sem Nixon naut eftir Watergate. Það er aðeins í blábyrjun ráðherratíðar hans og í cóvid-faraldrinum sem Bjarni lyftir sér upp fyrir Nixon. Á tíma sínum í forsætisráðuneytinu seig hann vel undir það traust sem Nixon naut þegar hann sagði af sér. Og þegar í ljós kom hvernig Bjarni stóð að sölunni á Íslandsbanka hrundi traustið langt fyrir neðan Nixon-traustið.

Og þá reis vantraustið í fyrsta sinn yfir það sem Nixon mátti þola. Fyrst þegar almenningur sá hverjum Bjarni hafði selt bankann, helstu leikurum í Hruninu 2008, og svo aftur og enn frekar þegar í ljós hafði komið að það var ekki bara almenningur sem gaf sölunni falleinkunn heldur ríkisendurskoðun, fjármálaeftirlitið og umboðsmaður Alþingis.

Það er því ljóst að Bjarni hefur ekkert teflon í huga almennings. Þrátt fyrir að vera formaður stærsta stjórnmálaflokksins og vera ráðherra, sem fjölmiðlar baða í frægðarljósi, hefur Bjarni aldrei notið alþýðuhylli, heldur þvert á móti. Bjarni hefur alltaf verið með óvinsælustu stjórnmálamönnum Íslandssögunnar.

Nema meðal stjórnmálafólks, fjölmiðlafólks og svokallaðra talandi stétta. Þar er því linnulaust haldið fram að ekkert býti á Bjarna, þótt kannanir sýni annað svart á hvítu. Samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins eru langt komnir með að klára sína pólitísku inneign á samstarfi við Bjarna. Og Sjálfstæðisflokkurinn hefur bæði klofnað og misst fylgi í formannstíð Bjarna. Samt virðist flokksfólk vera sannfært um að enginn geti leitt flokkinn annar en Bjarni. Þetta er eitt af undrum íslenskra stjórnmála.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí