Útbreiddasti misskilningur íslenskra stjórnmála er að Bjarni Benediktsson sé teflon-maður, að það sé sama í hvaða skammir hann ratar í ekkert dragi úr vinsældum hans, að almenningur treysti honum þótt hann hafi kannski ekki unnið til traustsins. Það hefur aldrei verið innistæða fyrir þessum fullyrðingum, eins og sjá hefur mátt á mælingu á trausti til Bjarna yfir hans ráðherratíð.
Þetta sýnir mælingar á trausti almennings til Bjarna frá því hann varð fjármálaráðherra 2013 og fram í síðasta mánuð, þegar hann hafði vikið úr fjármálaráðuneytinu vegna Íslandsbankasölunnar og fært sig yfir í utanríkisráðuneytið.
Á grafinu eru punktalínur sem sýna afstöðu Bandaríkjamanna til Richard Nixon forseta um það leiti sem hann sagði af sér og flaug á þyrlu burt frá Hvíta húsinu. Bjarni hefur átt í erfiðleikum með að halda traustinu fyrir ofan það sem Nixon naut eftir Watergate. Það er aðeins í blábyrjun ráðherratíðar hans og í cóvid-faraldrinum sem Bjarni lyftir sér upp fyrir Nixon. Á tíma sínum í forsætisráðuneytinu seig hann vel undir það traust sem Nixon naut þegar hann sagði af sér. Og þegar í ljós kom hvernig Bjarni stóð að sölunni á Íslandsbanka hrundi traustið langt fyrir neðan Nixon-traustið.
Og þá reis vantraustið í fyrsta sinn yfir það sem Nixon mátti þola. Fyrst þegar almenningur sá hverjum Bjarni hafði selt bankann, helstu leikurum í Hruninu 2008, og svo aftur og enn frekar þegar í ljós hafði komið að það var ekki bara almenningur sem gaf sölunni falleinkunn heldur ríkisendurskoðun, fjármálaeftirlitið og umboðsmaður Alþingis.
Það er því ljóst að Bjarni hefur ekkert teflon í huga almennings. Þrátt fyrir að vera formaður stærsta stjórnmálaflokksins og vera ráðherra, sem fjölmiðlar baða í frægðarljósi, hefur Bjarni aldrei notið alþýðuhylli, heldur þvert á móti. Bjarni hefur alltaf verið með óvinsælustu stjórnmálamönnum Íslandssögunnar.
Nema meðal stjórnmálafólks, fjölmiðlafólks og svokallaðra talandi stétta. Þar er því linnulaust haldið fram að ekkert býti á Bjarna, þótt kannanir sýni annað svart á hvítu. Samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins eru langt komnir með að klára sína pólitísku inneign á samstarfi við Bjarna. Og Sjálfstæðisflokkurinn hefur bæði klofnað og misst fylgi í formannstíð Bjarna. Samt virðist flokksfólk vera sannfært um að enginn geti leitt flokkinn annar en Bjarni. Þetta er eitt af undrum íslenskra stjórnmála.