Gústaf segir lítið mál að laga lesskilning barna: „Lestur er kenndur á rangan hátt á Íslandi“

Síðustu daga hafa ótal kenningar litið dagsins ljós um hvað veldur hörmulegum árangri íslenskra barna í nýjustu PISA-könnuninni. Meðan margir hafa kennt farsímum og samfélagsmiðlum um vandann, þá segir Gústaf Funi Ólafsson að ástæðan sé í raun ofureinföld, lestur sé ekki kenndur rétt á Íslandi. Í aðsendri grein sem hann birtir í Morgunblaðinu færir hann rök fyrir því að rannsóknir erlendis sýni þetta skýrt.

„Það er einfalt að mæla það hvort börn hafi lært að lesa. Það er því tiltölulega einfalt að komast að því hvernig er best að kenna börnum að lesa. Það hefur raunar verið gert, m. a. í stórri metarannsókn frá 2000 sem hægt er að nálgast á með því að fara á www. bit.ly/lesturpdf. Niðurstöður þeirrar rannsóknar voru afgerandi; til að kenna börnum að lesa á árangursríkan hátt þurfa þau að vita hvaða stafur tengist hvaða hljóði, að kunna að ‚A‘ segi A. Þrátt fyrir að þetta séu tiltölulega sönnuð vísindi vill ráðafólk á Íslandi ekki horfa á það og fólk sem er málsmetandi í menntakerfinu vill ekki horfa á vísindin heldur hefur það giskað á að kannski sé eitthvað annað betra. Og á meðan versnar ástandið bara og versnar,“ segir Gústaf.

Hann bendir á að íslensk börn séu orðin lélegri í lestri en börn í Mississippiríki í Bandaríkjunum. „Mississippiríki í Bandaríkjunum var fyrir um áratug með mun verri árangur í lestrarkennslu en Ísland, en síðan þá hafa Íslendingar tekið upp aðferðir sem fara lengra frá réttri átt en Mississippi hefur farið í rétta átt. Árangurinn á síðustu tíu árum er að lestrargeta barna í Mississippi hefur stóraukist en snarversnað á Íslandi. Einu sinni var Mississippi aðhlátursefni í menntamálum en hefur nú tekið fram úr Íslandi í lestri eftir að réttar aðferðir voru teknar upp. Vegna góðs árangurs Mississippi hefur New York-borg tilkynnt að allir skólar þar þurfi að leggja áherslu á að börn geti tengt hljóð og stafi,“ segir Gústaf og heldur áfram:

„En það þarf ekki að leita alla leið til Mississippi til að finna árangur af því að kenna lestur á réttan hátt. Í Vestmannaeyjum hefur verið átak síðustu tvö ár sem heitir Kveikjum neistann og leggur m. a. áherslu á að börn geti tengt alla stafi við hljóð. Þegar það var gert gátu 98% barna lesið eftir fyrsta bekk, en rannsóknir hafa einmitt sýnt að á bilinu 94-99% barna geta lært að lesa ef lesturinn er rétt kenndur. Rannsóknir hafa líka sýnt að um 40% barna læra að lesa hvernig svo sem lestrarkennslan er. Af þeim 60% barna sem þurfa lestrarkennslu lærir nær helmingur að lesa á Íslandi í dag. Það er ekki vegna framboðs á afþreyingarefni, vegna snjallsíma eða vegna þess að foreldrar lesa ekki fyrir börnin sín, heldur er það vegna þess að það er verið að kenna lestur á rangan hátt af því að það er einhver klíka sem getur ekki viðurkennt að hún hafi rangt fyrir sér.“

Að lokum segir hann að því miður þá muni þetta ekki breytast í nákominni framtíð. „Það er svo merkilegt að þrátt fyrir að ég sé að skrifa þetta og þú að lesa þetta þá mun þetta ekki hafa nokkur einustu áhrif. Fólk sem hefur til þess vald mun halda áfram að kenna lestur á rangan hátt og kenna öllu um slæman árangur nema kennslunni sjálfri. Afleiðingar þessarar þrjósku eru svo að samfélagið er lokað fyrir þriðjungi barna frá sex ára aldri. Ef þú kannt ekki að lesa þá er samfélagið lokað fyrir þér. Við kennarana sem segja „já, en að kenna hljóðaðferðina er svo leiðinlegt!“ vil ég segja þetta: Er ekki leiðinlegra að kenna bekk þar sem þriðjungur kann ekki að lesa? Það er engin ástæða fyrir því að þessu sé leyft að viðgangast. Þrjóska valdaklíkna er ekki ástæða til að eyðileggja möguleika fólks á að eignast gott líf í blábyrjun þess,“ segir Gústaf.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí