Fjöldi innlagðra sjúklinga á Landspítala með COVID dróst verulega saman milli vikna, undir lok nóvember. Í 47. viku ársins, 19.-25. nóvember, lágu 17 inni á sjúkrahúsinu með COVID, samanborið við 40 sjúklinga vikuna á undan. Um leið fækkaði greindum tilfellum Covid-19 lítið eitt milli vikna, úr 57 í 50. Þetta kemur fram í nýbirtri vikuskýrslu sóttvarnalæknis um öndunarfærasýkingar.
COVID er sem fyrr algengasta orsök innlagnar af völdum öndunarfærasjúkdóma. Innlögnum vegna inflúensu fjölgaði þó nokkuð milli vikna, en alls lágu sex inni á sjúkrahúsinu með sjúkdóminn í vikunni. Þá fjölgaði innlögnum vegna RS-veiru verulega en átta lágu inni með slíka sýkingu. RS-veira sker sig úr meðal þessara öndunarfærasjúkdóma þar sem hún leggst þyngst á börn: af átta innlögðum sjúklingum voru sex undir 2ja ára aldri.
Pestartíðin verður verri
Vikuskýrsla sóttvarnalæknis, sem vísað er til að ofan, birtist í gær, fimmtudag. Bandaríska tímaritið The Atlantic birti sama dag grein eftir örverulíffræðinginn Katherine J. Wu, undir yfirskriftinni „We’re Living the Reality of the Pandemic’s Simplest Math: Sick season will be worse from now on“ eða: Við lifum nú í veruleika hinnar einföldustu stærðfræði heimsfaraldursins: pestartíðin verður verri héðan í frá. Með orðalaginu „einfaldasta stærðfræðin“ vísar Wu til þess að COVID kom ekki í staðinn fyrir þær umgangspestir sem mannkyn hafði þegar við að stríða heldur bættist við þær: „Stærðfræðin er einföld, jafnvel fáránlega einföld,“ skrifar hún, „meinvirkt n+1 sem faraldsfræðingar hafa séð að mætti vænta frá því á fyrstu dögum faraldursins. Nú lifum við í þeim veruleika og við afleiðingar hans.“
Frá reikningsdæminu n+1 víkur hún að heldur hærri tölum: í Bandaríkjunum hafi COVID dregið 80.000 íbúa Bandaríkjanna til dauða það sem af er þessu ári, „sem er minna en undanliðin þrjú ár, en yfirgnæfir eftir sem áður öll verstu flensutímabil síðasta áratugar.“ Wu segir að á heimsvísu séu berklar „eini banvæni smitsjúkdómurinn sem skákar COVID í árlegum dauðsföllum.“ Við það bætir hún að samkvæmt könnun bandaríska sóttvarnaembættisins CDC á síðasta ári þjáist yfir 3 prósent fullorðinna Bandaríkjamanna af einkennum langvarandi COVID.
Pestartíðin verður lengri
Wu segir að þar sem enn sé aðeins við gögn nokkurra ára að styðjast, og gagnaöflun um COVID sé nú í besta falli æði gloppótt, þá sé erfitt að leggja mat á „nákvæmlega hversu mikið verri veturnir verða héðan í frá.“ Sérfræðingar hafi þó sagt henni að þeir hafi augun á nokkrum tilhneigingum sem valdi þeim ugg. Wu hefur það eftir Caitlin Rivers, dósent í faraldsfræði við John Hopkins háskólasjúkrahúsið, að jafnvel á þeim tímabilum þegar útbreiðsla veirunnar að baki COVID hefur verið með lægsta móti, hafi dauðsföll þó verið tíðari en þau voru fyrir faraldurinn.
Þá segir Rivers að á meðan flensutímabilið eigi sinn afmarkaða sess á dagatalinu, yfir veturinn, þá virðist COVID, ef marka má undanliðin ár, „rísa á sumrin, falla saman við haustbylgju RS-veirunnar, auka loks á byrðina af inflúensu yfir veturinn og draga eymdina fram á vor.“
Samfélagið venur sig við veikindi
Wu hefur það eftir Bill Hanage, dósent í faraldsfræði við lýðheilsuskóla Harvard-háskóla, að um fyrirsjáanlega framtíð muni „meira eða minna öll ár héðan í frá verða verri en við áttum að venjast áður fyrr.“
Wu spurði Hanage hvers konar ráðstafanir væri vert að gera til að bregðast við öndunarfærasjúkdómi sem valdi um tvöfalt fleiri dauðsföllum en inflúensa. Hún segir að hann hafi svarað með kunnuglegri upptalningu: betra aðgengi að bóluefnum og veirulyfjum, með áherslu á viðkvæma hópa; betri skimanir til að gera fólki í meiri áhættu fært að leggja mat á útbreiðslu og áhættu í sínu nærumhverfi; betra aðgengi að veiruprófum – og áreiðanlegan aðgang að launuðu veikindaleyfi. Án þessara breytinga munu umframveikindi og dauðsföll halda áfram „og við munum gera ráð fyrir þeim í daglegu lífi okkar,“ sagði Hanage.
Og það er það sem er að gerast, skrifar Wu. Hún vitnar í samtal við Yvonne Maldonado, prófessor í barnalækningum við Stanford-háskóla, sem sagði: „Við venjumst því að fólk veikist á hverju ári. Við venjumst hlutum sem við gætum líklega lagað.“ Fyrstu árin eftir að COVID kom til sögunnar veittu hrikalegt viðmið um veikindi og dauðsföll, skrifar Wu. Núverandi n+1 ástand smitsjúkdóma gæti virst léttir í samanburði. „En beri maður það saman við heiminn fyrir COVID er staðan hlutlægt verri.“
Grein Wu í heild má nálgast á vef The Atlantic.
Vikuskýrslu sóttvarnalæknis lýkur að venju með áminningu um persónulegar sóttvarnir til að draga úr líkum á að smitast og á að smita aðra.