Krókódílatár Sigríðar Margrétar – Mannvonska og græðgi að semja ekki strax og kjarasamningur rann út

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, greindi frá því fyrr í kvöld að ISAVIA og SA muni ekki þiggja fundarboð frá Ríkissáttasemjara nema flugumferðarstjórar aflýsi aðgerðum sínum á mánudag og miðvikudag. Í viðtali við RÚV hneykslaðist hún enn fremur á verkalýðsbaráttu flugumferðarstjóra. „Það eru mikil vonbrigði að það sé ein tiltekin stétt á vinnumarkaði sem sé að koma fram með kröfur umfram þann ramma og stefnu sem hefur verið mörkuð og umfram það svigrúm sem hægt er að vinna með,“ sagði hún við RÚV.

Marinó G. Njálsson á hinn bóginn segir það kostulegt hvernig SA sífellt kennir öllum öðrum um hnúta í kjarabaráttu, þegar öllum ætti að vera ljóst að það þarf tvo í tangó. „Samtök atvinnulífsins eiga það ansi oft til að koma með alveg óskiljanlegar útskýringar á hlutunum. Eins og oft þegar kemur að kjarasamningum, þá er það launþegahreyfingunum að kenna, að allt sé komið í hnút og verkföll ýmist í gangi eða yfirstandandi. Ég man ekki eftir einu einasta skipti, þar sem samtökin hafa viðurkennt sinn hlut í málum,“ skrifar Marinó á Facebook.

„Núna bæta þau í og kenna ríkissáttasemjara um. Segja að ríkissáttasemjarar á Norðurlöndunum myndu aldrei hleypa viðræðum á þann stað, sem þær eru núna. Samtökin vísa ekki til þess hvernig norræn atvinnurekendasamtök haga sér.“

Hann segir að samanburður við Norðurlöndin muni ekki verða SA hagstæður. „Þar sem ég var starfandi á dönskum vinnumarkaði í rúm 10 ár og vann með fólki af öllum Norðurlöndunum, þá fékk ég smá innsýn í gang mála á hinum norræna vinnumarkaði. Það fyrsta sem ég tók eftir var að norrænir vinnuveitendur gættu að því að nýir kjarasamningar væru undirritaðir áður en hinir fyrri runnu út. Á þessu voru að sjálfsögðu undantekningar, en ekki meðal viðsemjenda þess fyrirtækis sem ég vann hjá. Man ég eftir nokkrum skiptum, þar sem tilkynnt var með nokkurra mánaða fyrirvara um nýja samninga og þær kjarabætur sem komu með þeim,“ segir Marinó.

„Í sumum af þeim kjarasamningum, sem vinnufélagar mínir áttu aðild að, voru laun verðtryggð, þannig að þau tóku breytingum árlega í samræmi við undangengna verðbólgu. Ég er ekki að mæla með því, en þetta þýðir að launþegar þurftu ekki að sækja launahækkanir til að viðhalda kaupmætti. Það gerðist sjálfkrafa.“

Í þessu samhengi bendir Marinó á að langt er síðan kjarasamningur flugumferðarstjóra rann út. „Ekki ætla ég neitt að taka afstöðu til krafna flugumferðarstjóra, en samkvæmt því sem komið hefur fram í fjölmiðlum, þá runnu kjarasamningar þeirra út 30. september. Það er vel þekkt, að launagreiðendur hafa litlar áhyggjur af því, að starfsfólk þeirra sé bundið á eldri kjarasamningi löngu eftir að hann er útrunninn. En svo ég skaði ekkert utan af hlutunum, þá er þetta mannvonska og græðgi. Þeir nefnilega halda launum starfsmanna sinna niðri og græða á því,“ segir Marinó og bætir við að lokum:

„Ég hef oft sagt, að lausnin á þessu er ekki nema ein, að nýr kjarasamningur gildi frá því að eldri rennur út. Þá þarf ekki verkföll eða verkbönn eða yfirhöfuð einhverjar hótanir eða skæting. Dragist að semja, þá kemur einfaldlega afturvirk greiðsla og ekkert meira um það að segja. Launþegar fá það sem samið var um frá lokum síðasta samnings og launagreiðendur hagnast ekki á því að draga samningaviðræður á langinn. Ég mæli með að þetta verði sett í lög um kjarasamninga, svo ekki þurfi að ræða þetta í hvert sinn.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí