Segja Ríkisútvarpið falsa söguna um nýja stjórnarskrá

„Alvarlega og grófa staðreyndavillu um sögu Íslands er að finna í síðari hluta heimildarþáttar sem framleiddur var fyrir Ríkisútvarpið í tilefni 100 ára fullveldis landsins og sendur út 3. desember síðastliðinn. Hér með er óskað eftir svörum við því hvernig Ríkisútvarpið ætlar að bregðast við og leiðrétta villuna gagnvart almenningi,“ skrifar stjórn Stjórnarskrárfélagsins til útvarpsstjóra, Stefáns Eiríkssonar vegna umfjöllunar um stjórnarskrármálið í síðari hluta fullveldisþáttar sem sýndur var í kringum fullveldisdaginn.

Margrét Jónasdóttir, núverandi gæðastjóri RÚV, er einn höfunda myndarinnar en mynd hennar um Hrunið var harðlega gagnrýnd fyrir undarlegt sjónarhorn og margir aðstandenda þeirrar myndar bönnuðu að nöfn þeirra yrðu tengd myndinni.

Í bréfinu frá stjórnarskrárfélaginu segir að ranglega sé staðhæft í myndinni að þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur að nýrri stjórnarskrá sem urðu til eftir hrunið 2008 hafi aldrei farið fram. Nánar tiltekið, með þessum orðum: „Þjóðaratkvæðagreiðslan sem átti að halda var aldrei haldin.“

„Ekki er hægt að láta þessa röngu fullyrðingu um grundvallaratriði og stórviðburð í sögu landsins standa óhreyfða í heimildarþætti sem almannaútvarpið sendir út og ber ábyrgð á,“ segir í bréfinu. „Stjórnarskrárfélagið óskar eftir að útvarpsstjóri svari því opinberlega hvernig þetta verði leiðrétt og hinu rétta í málinu komið á framfæri.“

Og svo áfram: „Hið rétta er, að Alþingi boðaði til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur að nýrri stjórnarskrá sem var haldin 20. október 2012. Tillögurnar voru niðurstaða lýðræðislegs ferlis sem vakti heimsathygli, „eitt víðtækasta og lýðræðislegasta stjórnarskrárferli sem vitað er um“, svo notuð séu orð Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands. Í Þjóðaratkvæðagreiðslunni samþykktu yfir 2/3 hlutar kjósenda (66,9%) að tillögurnar sem fyrir þá voru lagðar skyldu verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár Íslands.

Í lýðræðisríkjum eru úrslit kosninga virt. Alltaf og afdráttarlaust. Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar hafa þó ekki enn verið virt og framganga margra í málinu og vanvirðing gagnvart lýðræðislegum grundvallargildum lofar ekki góðu. Við lifum viðsjárverða tíma falsfrétta og þöggunar og það er ótækt að því sé haldið fram í Ríkisútvarpinu að þjóðaratkvæðagreiðslan 2012 um nýja stjórnarskrá hafi aldrei verið haldin. Þá sögufölsun verður að leiðrétta með afgerandi hætti, hvort sem hún var vísvitandi gerð eða ekki. — Við væntum skjótra svara.“

Myndin er af Margréti höfundi myndarinnar og Stefáni útvarpsstjóra.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí