Ný sjónvarpsstöð hóf tilraunaútsendingar í dag. Þetta er Samstöðin sem nú má finna á rás 5 hjá þeim sem fá sjónvarpsútsendingar frá Símanum, en það eru nærri fimmtíu þúsund heimili. Ef samningar nást munu þau sem fá sjónvarpsútsendingar í gegnum önnur fjarskiptafyrirræki einnig geta horft á Samstöðina í sjónvarpstækjum sínum.
„Við sendum út samfélagsumræðu allan sólarhringinn, alla daga vikunnar,“ segir Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Samstöðvarinnar. Á hverjum degi eru sendir út um þrír til fjórir tímar af nýju efni, sem er síðan endurflutt í bland við eldra efni.
„Þetta er meiri samfélagsumræða en nokkur sjónvarpsstöð á Íslandi sendir frá sér, margfalt meiri,“ segir Gunnar Smári. „Og okkur er sagt að hún sé líka betri, alla vega dýpri.“
Gunnar Smári bendir á að Samstöðin hafi orðið til án þess að fá nokkra fjölmiðlastyrki eða annan beinan stuðnings hins opinbera. Hann segir Samstöðina vera samstarfsverkefni fólk sem stjórnar þáttum, gestum þeirra og áhorfenda sem geta gerst áskrifendur hér til að styrkja starfsemina: Áskrift.
Þættir Samstöðvarinnar er líka aðgengilegt á youtube og það má hlusta á þá í útvarpssendingum á stór-höfuðborgarsvæðinu á fm 89,1. Þær útsendingar má líka nálgast á spilarinn.is og í appi, Spilarinn, og hlusta á útsendingarnar hvar sem er í heiminum. Þá má sækja alla þætti Samstöðvarinnar á allar helstu hlaðvarpsveitur. Og nú bætast við þau heimili sem fá sjónvarpsútsendingar frá Símanum og síðan í framhaldinu heimili sem fá sendingar annars staðar frá.
„Þetta er auðvitað fagnaðarefni fyrir allan landslýð, að það sé að verða til ný sjónvarpsstöð á þessum krepputíma í fjölmiðlum,“ segir Gunnar Smári. Hann bendir á að bara á þessu ári hafi tvær sjónvarpsstöðvar, Hringbraut og N4, hætt starfsemi. Í dag eru aðeins fjórar sjónvarpsstöðvar sem framleiða almennt íslenskt efni: Ríkissjónvarpið, Stöð, Sjónvarp Símans og Samstöðin.