Tómas Guðbjartsson skurðlæknir á Landspítalanum sem óskaði nýverið eftir sjúkraleyfi frá Landspítalanum hefur rofið þögnina vegna hins svokallaða plastbarkamáls.
Í yfirlýsingu á facebook segist Tómas þurfa að tjá sig vegna fréttaflutnings af aðkomu hans að fyrstu plastbarkaaðgerðinni á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi í júní 2011.
Umræðan hafi verið óvægin og ekki verið farið rétt með staðreyndir. 10 sinnum hafi hann verið kallaður sem vitni hjá 10 innlendum og erlendum rannsóknaraðilum plastbarkamálsins. Frumkvæði hans að veitingu gagna hafi í sumum tilvikum afhjúpað ófullkomin vinnubrögð af hans hálfu.
Þá segir Tómas: „Ég er mannlegur, oft á tíðum fyrirferðamikill og hvatvís, en eflaust líka hégómlegur, ekki síst þegar ég hef komið fram í fjölmiðlum til að ræða málefni sem standa hjarta mínu nærri. Ég hef þó ávallt, og eftir bestu vitund, reynt að greina rétt frá staðreyndum.
Ég biðst afsökunar á þeim atriðum í þessu máli sem hefðu betur mátt fara og sneru að mínum störfum sem læknir og fræðimaður, og hversu langan tíma það tók mig að sjá í gegnum Paolo Macchiarini og þann blekkingarvef sem hann skóp, og er vel lýst í þáttunum Bad Surgeon á Netflix.“
Tómas segir málið hafa valdið sér og fjölskyldu ómældum sársauka, sársauka sem muni fylgja honum ævina á enda.
„Meiri er þó vitaskuld sársauki og missir ekkjunnar og barnanna tveggja, sem mér verður ítrekað hugsað til,“ skrifar Tómas á facebook.