Í morgun hóf Hagkaup sölu á áfengi og verður það selt til klukkan níu á kvöldin, nokkuð lengur en ÁTVR að jafnaði. Sumir fagna þessu en það gerir hins vegar ekki Björn Sævar Einarsson, formaður bindindissamtakanna IOGT á Íslandi. Björn Sævar raunar fordæmir Hagkaup í viðtali við Rauða borðið sem sýnt verður í kvöld.
„Þetta er afskaplega sorglegt og áfall fyrir lýðheilu. Það sem verra er, er að þeir eru að brjóta lög, því það er mjög skýrt að ÁTVR er með einkarétt á smásölu áfengis. Að fela sig bak við netsala sé ekki smásala, það vita það allir sem hafa verslað á netinu að það er eins og hver önnur smásala, sérstaklega því lagerinn er hérna á Íslandi,“ segir Björn Sævar.
Hann fullyrðir að Hagkaup sé nú að bætast í hóp fyrirtækja á Íslandi sem fari í kringum lögin með því að misnota glufu í lögunum. Að hans sögn hafi hugmyndin með að leyfa netsölu á áfengi verið að gera einstaklingum kleyft að panta stöku áfenga drykki frá útlöndum – ekki að opna á samkeppni fyrirtækja við ÁTVR.
„Hér eru menn að reyna að fara í kringum löginn, einkaleyfi ríkisins á smásölu. Það er eitt af lykilstoðunum í því að reyna að takmarka markaðssetningu áfengis. Þetta er nokkuð sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir og hrósar þeim löndum sem eru með þetta kerfi,“ segir Björn Sævar.
Björn Sævar ræðir þessu stöðu nánar í ítarlegu viðtali við Rauða borðið í kvöld.