Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi formaður sama flokks, segir það hættulega og óskynsamlega þróun að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna búi á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir að fyrirhugaðar breytingar á Háskólanum á Akureyri, að sameina hann við Háskólann á Bifröst, séu ekki líklegar til að draga úr þeim öfgum.
„Háskólinn á Akureyri var stofnaður árið 1987. Það var farsæl ákvörðun og stofnun hans var ekki ákveðin í neinu tómarúmi. Frá árinu 1900 – 2020 hafa íbúar Reykjavíkur farið úr því að vera 7.4% af landsmönnum í 34%. Og íbúar höfuðborgarsvæðisins úr 11% í 64%. Þetta er óskynsamleg og hættuleg þróun sem nauðsynlegt er að bregðast við. Stofnun skólans er eflaust ein skilvirkasta og farsælasta byggðaraðgerð í sögu landsins og var ekki síst hugsuð í þeim tilgangi,“ segir Logi í aðsendri grein sem birtist á Akureyri.net.
Hann segir að Háskólinn á Akureyri hafi skipt sköpum fyrir bæinn. „Skólinn breytti eðli og ásýnd Akureyrar á mjög skömmum tíma. Ári fyrir stofnun hans flutti ég erlendis til náms en kom heim aftur sex árum síðar. Það er óhætt að segja að ég hafi flutt til baka í miklu betri bæ en ég yfirgaf tímabundið, nokkrum árum áður. Bæjarlífið hafði tekið stakkaskiptum og þessi áður rólegi og fábreytti bær var nú orðin deigla fjölbreyttara og líflegra mannlífs. Þótt margt hafi vissulega lagst þar á eitt er ég sannfærður um að starfsemi skólans og allir ungu háskólanemarnir voru ekki síst lykillinn að þessari jákvæðu þróun,“ segir Logi.
Logi segist hafa efasemdir um að fyrirhuguð sameining muni efla fyrrnefnt byggðarhlutverk. „Seint í haust bárust fréttir af því að til stæði að sameina Háskólann á Akureyri og Háskólann á Bifröst í einn öflugan háskóla. Ef þau áform ganga eftir verður að tryggja að sameiningin skili bæði betri skóla og sinni byggðarhlutverki sínu a.m.k. jafnvel; enda var það eitt af höfuð markmiðum með stofnun Háskólans á Akureyri og þarf að vera það áfram. Þó kvikna ýmsar efasemdir varðandi þessa vegferð. Nýleg fýsileikaskýrsla, vekur nefnilega upp fleiri spurningar en hún svarar,“ segir Logi og heldur áfram:
„Er tryggt að nemendum við sameinaðan skóla verði áfram gert kleift að stunda nám til meistarastigs án skólagjalda, í öllum tilvikum? Er öruggt að staðarnemum á Akureyri fækki ekki enn á kostnað aukinnar fjarkennslu (einsog auðveldlega má lesa út úr fýsileika skýrslunni). Er víst að megin þorri starfa við skólann leki ekki suður til Reykjavíkur (eins og í tilfelli Háskólans á Bifröst) og geri fræðasamfélagið á Akureyri fátæklegra? Það er mikilvægt að þessum spurningum verði svarað játandi áður en slík sameining yrði kláruð, að öðrum kosti hefði sameiningin verulega slæm áhrif á Norðurland; skaða samkeppnisstöðu svæðisins og ýta enn undir neikvæða byggðarþróun í landinu.“
Hann segir sérstaklega varhugavert hve hratt þessi sameining á að ganga fyrir sig. „Það sem vakti þó sérstakan ugg var hvað ferlið átti að ganga hratt fyrir sig. Áformin voru gerð opinber seint í haust og í fýsileikaskýrslunni er talað um að sameiningin yrði kláruð fyrir lok febrúar. Nú virðist það sem betur fer hafa breyst og aðilar ætla að taka sér rýmri tíma. Það er því mikilvæg krafa að efnt sé til miklu víðtækara og almennara samtals en átt hefur sér stað hingað til. Þótt slíkar viðræður séu leiddar af sérfræðingum í skólamálum og rýndar af skólastjórnum skólanna er framtíð skólans mikið hagmunamál íbúa alls svæðisins. Og þeir þurfa því að fá færi til að koma með ákveðnari hætti inn í þessa umræðu. Háskólinn á Akureyri er eitt af fjöreggjum fjórðungsins; tryggir meiri jöfnuð landsmanna til náms og leikur gríðarlega stórt hlutverk í atvinnu- og byggðarþróun svæðisins. Hann er of dýrmætur til að kastað sé til höndunum á þessari vegferð. Þess vegna er rétt að minna á að í upphafi skyldi endinn skoða,“ segir Logi.