Eftir langvarandi kuldaskeið spáir Veðurstofan allt að 12 stiga hita á landinu í næstu viku. Töluverð rigning gæti fylgt. Hefur verið haft á orði að hamfarahlýnun gæti legið í loftinu.
Með því er vísað til hættu sem gæti skapast á flughálku. Einnig gæti vandi skapast vegna leysingavatns og haft áhrif á færð.
Mörgum fótgangandi landsmanninum hefur orðið hált á svellinu síðustu daga. Fjölmargar byltur hafa orðið hjá fótgangandi fólki. Slæm beinbrot og tognanir eru meðal áverka samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum.
Sala á salti hefur slegið öll met að sögn verslunarfólks en sumir íbúar sanda líka. Þá hefur Reykjavíkurborg bent á að mikilvægt sé áður en hlýja loftið dembist yfir að huga að niðurföllum. Kaup á mannbroddum til að verjast hálkuslysum geta einnig verið árangursrík forvörn.
Hlýindin munu samkvæmt veðurspánni skella á landsmönnum á þriðjudag. Nokkrum dögum síðar frystir á ný og stefnir í annan flughálkukafla.
Það er því betra að fara varlega næstu daga og gott að minnast hins fornkveðna: Kemst þótt hægt fari.