Maður sem hafði samband við Samstöðina lýsir hræðilegri reynslu af heimsókn á bráðamóttöku Landspítalans í síðustu viku.
Maðurinn vill ekki koma fram undir nafni en tekur fram að starfsfólkið hafi staðið sig vel við ómanneskjulegar aðstæður.
Hann segist spyrja sig spurninga hvort aðstöðuskortur, vanfjármögnun og undirmönnun sem leiði til endalausra tafa og áreitis hjá bráðveikum ógni heilsu sumra sem leita á bráðamóttöku meira en ef þeir sætu heima.
Maðurinn er Reykvíkingur á miðjum aldri sem leitaði sér læknishjálpar eftir hátíðirnar vegna sýkingar sem kallaði á lyf í æð. Hann segir að hann hafi verið settur í forgang, enda hjartað í hættu. Tíminn meðan hann fékk lyfið og var til rannsóknar hafi ekki verið líkur neinu sem hann hafi upplifað til þessa.
Manninum var komið fyrir á gangi sem var þétt setinn af fólki í alvarlegu ástandi. Hann segir að sumir sjúklinga hafi hljóðað nánast linnulaust af kvölum. Þeir sem þurftu að sæta meðferð við þessar aðstæður lentu því í miklu áreiti, jafnvel í tugi klukkustunda. Maðurinn segir hvíld mjög mikilvæga þegar heilsan brestur. Engin leið hafi verið að ná svefni fyrir þá sem þurftu að dvelja yfir nótt á bráðamóttökunni vegna áreitis, umferðar, kjökurs og álags.
„Þessi þáttur heilbrigðisþjónustunnar er svo hvellsprunginn að það sé með ólíkindum að við íslenska þjóðin látum þetta óboðlega ástand yfir okkur ganga,“ segir maðurinn sem sér íslenskt samfélag í nýju ljósi eftir lífsreynsluna.
Samstöðin hefur sent heilbrigðisráðherra fyrirspurn og væntir svara.