„Mér finnst rasistatilhneiging í þessum málum,“ segir Guðbrandur Bogason ökukennari sem í sjónvarpsþættinum Maður lifandi á Samstöðinni hélt í gær óhikað fram að erfiðari ökupróf væru lögð fyrir innflytjendur en þá sem fæðast á Íslandi.
Hann segir að fólk sem ekki er íslenskumælandi megi eiga von á mun erfiðari ökuprófum undir stjórn manna hjá Samgöngustofu en aðrir. Þá sé orðalag prófanna úrelt, gömul íslenska sé notuð sem jafnvel innfætt ungt fólki eigi erfitt með að skilja.
„Mér finnst íslensk stjórnvöld allt of refsiglöð gagnvart þessum hópi fólks,“ segir Guðbrandur.
Hann gagnrýnir Samgöngustofu sem uppfæri sig ekki að þörfum nútímans. Hann gagnrýnir líka útfærslur og segir viðmiðunarkvarða ökuprófa úrelt tæki. Handbók ökuprófa sé leyniplagg sem Samgöngustofa liggur á. Engir fái að sjá nema útvaldir einstaklingar.
„Við megum ekki einu sinni verða vitni að prófdæmingu,“ segir Guðbrandur fyrir hönd ökukennara.
„Það er svo mikill embættismannahroki í þessu að það er ólíðandi.“
Á árum áður óskuðu stjórnvöld þekkingar ökukennara að sögn Guðbrands en nú hafa stjórnvöld kosið að sitja ein að leiðsögninni með vondum árangri. Samvinna sé málið.
Þátturinn Maður lifandi leggur áherslu á hugðarefni ungs fólks en kostnaður við ökupróf er nálægt 400.000 krónum að lágmarki. Kom einnig til umræðu hvort bílprófum verði stéttastkipt eftir efnahag í framtíðinni.