Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, fyrrum kennari við HA, kallar það „rosalega ómerkilegt hjá Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur ráðherra að segja að samstarfsfólk Háskólans á Akureyri hafi verið hrætt við breytingar.
Ingólfur segir þetta á facebook vegna fréttar um sameiningu Bifrastar og Háskólans á Akureyri.
Í frétt Rúv kemur fram að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra telur enga ástæðu til að endurskoða sameiningu skólanna tveggja þrátt fyrir athugasemdir. Forsvarsmenn deilda HA kalla eftir frekari rökstuðningi. Skýrsla um fýsileika sameiningar hefur í ályktun verið sögð slagorða- og áróðurskennd og er spurt um hlutverk landsbyggðarinnar.
„Ég skil auðvitað þegar fólk er hrætt við breytingar og hefur fyrirvara á þeim, það er nú eðli hvers kyns breytinga, eðlilega,“ er meðal þess sem Áslaug sagði í viðtali við Rúv.
„Það er eiginlega bara frekar fátt sem bendir sérstaklega til þess að Háskólinn á Akureyri muni styrkjast við að taka yfir starfsemi Háskólans á Bifröst eða að settar verði upp formlegar starfsstöðvar í Reykjavík og í Borgarnesi,“ segir Ingólfur Ásgeir.
Hann viðurkennir að afstaða hans sé ekki óhlutdræg vegna fyrri starfa við HA en hikar ekki við að nota stór orð um framgöngu ráðherrans.